Hassan Shahin er 39 ára sýrlenskur klæðskeri sem hefur rekið saumastofu í miðbænum undanfarið ár. Hann flúði hingað til lands frá Írak fyrir um þremur árum síðan. Bróðir hans Muhammed, lést fyrir fáeinum vikum á leið sinni til Íslands.
Mbl.is ræddi við Hassan, sem hefur lært íslensku undanfarið ár, á saumstofu hans á Hverfisgötu ásamt Ómari Samir sem aðstoðaði við túlkun.
„Fyrsta árið gerði ég ekkert. Ég bara beið, eftir kennitölu,“ segir Hassan. Hann fékk síðan vinnu á saumastofu í Kringlunni þar sem hann starfaði í tæpt ár, áður en hann hóf störf í íþróttamiðstöðinni Ásgarði.
„Ég safnaði svo fyrir saumavél og vann heiman frá mér áður en ég opnaði saumastofuna mína. Ég átti saumastofu í Damaskus í svona tíu ár, var tvö ár að læra að vera klæðskeri. Þegar ég kom til Íslands gat ég ekki hugsað um annað en að byrja að vinna við hvað sem er til að safna pening. Ég beið í eitt ár og hugsaði ekki um annað en að byrja vinna til að geta bara borðað,“ segir Hassan.
Hann segir Íslendinga hafa tekið sér opnum örmum.
„Það var ótrúlegt hvernig fólk tók á móti mér. Það var tekið á móti mér af virðingu og ást og ég hef fengið allt frá Íslendingum sem ég vildi fá,“ segir Hassan.
Hassan er frá Damaskus og ólst þar upp ásamt foreldrum sínum og systkinum. Þau flúðu til Írak árið 2011 þegar borgarastyrjöldin braust út.
„Ég var þar í fjögur ár, það voru engin tækifæri til að opna saumastofu. Ég og bróðir minnMuhammed vorum í Írak en hann þurfti svo að þjóna herskyldu í Sýrlandi og fór. Þegar ástandið versnaði alltaf meira og meira komu allir til Írak, foreldrar mínir og hin systkini mín. Ég reyndi eins og ég gat að halda fjölskyldunni saman, það var mjög erfitt. Svo ákvað ég að reyna að fara eitthvert annað. Tyrkland, Grikkland, Sviss, Þýskaland og svo komst ég loksins til Íslands, eftir eitt ár,“ segirHassan.
Hassan segist ekki hafa getað hugsað skýrt fyrr en hann gat byrjað að vinna hér á landi. Hann kom sér fyrir og tókst af þrautseigju að opna saumastofuna sína. Foreldrar Hassan eru nú í Sýrlandi og systkini hans eru ýmist þar eða í Írak. Hassan segir það hafa verið gríðarlega erfitt að fara frá fjölskyldu sinni og koma einn til Íslands. Ástandið sé slæmt í Sýrlandi og það sé erfitt að hugsa til þeirra aðstæðna sem foreldrar hans búa við.
Hassan og bróðir hans Muhammed, 22 ára, ákváðu í sameiningu að Hassan færi á undan Muhammed til Íslands, kæmi undir sig fótunum og að Muhammed myndi í kjölfarið flytja til Íslands og aðstoða Hassan við rekstur saumastofunnar. Muhammed lést fyrir um þremur vikum síðan í Tyrklandi á leið sinni að betra lífi segir Hassan.
Hassan hefur undanfarið ár lært íslensku, aðallega hjá Mími símenntun. Hann segist hafa farið þrisvar sinnum á fyrsta íslenskunámskeiðið til að vera alveg viss um að hafa lært allt nógu vel. Hann segist horfa á Ísland sem heimili sitt. Þess vegna álítur hann það skyldu sína að læra íslensku.
Hassan kynntist unnustu sinni, Amani, í Sýrlandi fyrir rúmum tíu árum, en hann flúði til Írak áður en þau náðu að gifta sig. Hassan segist nú bíða eftir því að geta farið til hennar og gifts henni, en heimsfaraldur kórónuveiru hefur sett strik í reikninginn. Þar sem Hassan flúði Sýrland yrði hann samstundis handtekinn ef hann færi þangað aftur. Amani býr í Sýrlandi núna og þar sem hún er með „óvinsælt“ vegabréf, segir Hassan að möguleikarnir eru takmarkaðir. Þau þurfa því að hittast í Líbanon eða Súdan og gifta sig þar svo að Hassan geti svo farið með tilskilin gögn aftur til Íslands svo hún geti einnig fengið hér alþjóðlega vernd.
Hassan segist vona að það verði sem fyrst þar sem þau vilja bæði stofna fjölskyldu, en þau eru bæði farin að nálgast fertugt og áralöng streita vegna borgarastyrjaldarinnar hefur bitnað á heilsu þeirra beggja. Ómar segist þá hafa túlkað fyrir marga hælisleitendur hér á landi sem hafa gengið í gegnum erfiðleika við að stofna fjölskyldu eftir það áfall að flýja heimaland sitt.
Spurður hvernig hann sjái framtíðina fyrir sér segist Hassan vilja lifa eðlilegu lífi.
„Fyrst og fremst vilja fá konuna mína hingað, stofna fjölskyldu og lifa venjulegu lífi eins og aðrir. Ég er mjög ánægður á Íslandi, en mig langar hitta fjölskyldu mína aftur. Kannski opna ég aðra saumastofu einhvern tímann og sýni sýrlensk föt. Vera með lítið Sýrland í Reykjavík,“ segir Hassan.
Að lokum segist Hassan þakklátur fyrir þau tækifæri sem honum hefur hlotnast hér á landi.
„Mér finnst mikilvægt að fá tækifæri. Ég tek eftir því þegar fólk er sátt við mig eins og ég er og gefur mér tækifæri, til dæmis með því að tala íslensku við mig.“