Lögreglan handtók mann í Austurbænum (hverfi 108 - Háaleitis- og Bústaðahverfi) á sjötta tímanum í morgun en tilkynnt hafði verið um að hann væri að stela úr bílum í hverfinu.
Maðurinn viðurkenndi á staðnum að hafa farið í marga bíla og stolið dóti úr þeim. Hann er vistaður í fangageymslum lögreglunnar vegna rannsókn málsins.
Ökumaður bifreiðar sem lögreglan stöðvaði í Skeiðarvoginum upp úr miðnætti er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, akstur bifreiðar án gildra ökuréttinda og vörslu fíkniefna.
Lögreglan hafði afskipti af manni í Breiðholti (hverfi 109) um eitt í nótt. Maðurinn var með bifhjól með röngum skráningarmerkjum og er hann grunaður um nytjastuld farartækja, akstur undir áhrifum fíkniefna, akstur bifhjóls sviptur ökuréttindum og vörslu fíkniefna. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
För tveggja ölvaðra ökumanna var stöðvuð á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Annar í Kópavoginum og hinn í Breiðholtinu. Einn var síðan tekinn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í Hraunbænum í nótt.
Síðastliðinn sólahring sinnti slökkvilið höfuðborgarsvæðisins margvíslegum verkefnum. Meðal annars voru 94 boðanir á sjúkrabíl og þar af var 31 forgangsverkefni. Boðanir á dælubíla voru 6 meðal annars vegna umferðaslyss og vatnstjóns.