Umboðsmaður spyr um lögheimilisskráningar

73 höfðu skráð lögheimili í húsinu á horni Bræðraborgarstígs og …
73 höfðu skráð lögheimili í húsinu á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Umboðsmaður Alþingis hefur sent Þjóðskrá fyrirspurn um eftirlit stofnunarinnar með skráningu lögheimilis og aðseturs. Tilefnið eru upplýsingar sem fram komu í fjölmiðlum um að 73 einstaklingar hefðu verið með skráð lögheimili í húsinu á Bræðraborgarstíg sem brann í síðasta mánuði en þrír létu lífið í brunanum.

Umboðsmaður óskar eftir að Þjóðskrá upplýsi á hvaða forsendum forstjóri stofnunarinnar byggi þá afstöðu sína að ekki séu takmörk á því samkvæmt lögum hve margir eru skráðir með lögheimili í hverju húsi eða íbúð.

Þá er einnig óskað eftir upplýsingum um hvernig brugðist er við tilkynningum til Þjóðskrár um lögheimili í tiltekinni íbúð eða húsi ef skráður fjöldi einstaklinga með lögheimili á staðnum er slíkur fyrir að ólíklegt sé að fleiri geti haft þar fasta búsetu.

Greint hefur verið frá því að Þjóðskrá hafi að undanförnu tekið mál upp að eigin frumkvæði þegar fjöldi íbúa var talinn gefa til kynna að lögheimilisskráning gæti verið röng. Óskar umboðsmaður því eftir upplýsingum um þau mál sem þjóðskrá hefur tekið upp að eigin frumkvæði, hvaða viðmið eru lögð til grundvallar, hvernig athugun fer fram og framvindu þeirra þegar niðurstöður liggja fyrir. Jafnframt er óskað upplýsinga um hvort slíkar athuganir hafi orðið tilefni til viðbragða af hálfu Þjóðskrár Íslands og þá hverra.

Svara er óskað fyrir 10. ágúst svo umboðsmaður geti tekið afstöðu til þess hvort tilefni sé til að taka málið til frumkvæðisathugunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert