Kvikmyndahúsið Bíó Paradís óskar eftir sjálfboðaliðum til að hjálpa til við framkvæmdir í húsnæðinu næstu helgi. Allir sem vettlingi geta valdið eru hvattir til að mæta í bíóhúsið á Hverfisgötu á laugardag og sunnudag enda ýmislegt sem stendur fyrir þrifum.
Í samtali við mbl.is segir Hrönn Sveinsdóttir að lengi hafi legið fyrir að ráðast þurfi í ýmiss konar framkvæmdir á húsnæðinu, sem hún segir að sé í niðurníðslu. Um tíma stóð til að loka þyrfti bíóinu endanlega eftir að leigan á húsnæðinu var hækkuð, en því tókst að afstýra með því að Reykjavíkurborg og ríkið juku stuðning sinn við bíóið.
Stefnt er að því að opna bíóið aftur fyrir gestum föstudaginn 11. september, en fjórum dögum síðar fagnar bíóið tíu ára afmæli. Þangað til þarf að ráðast í ýmis verkefni stór og smá. „Það hefur dregist úr hófi og stóð til löngu áður en þetta Covid-vesen hófst,“ segir Hrönn.
Borðið í veitingasölunni verður rifið og stærri og veglegri veitingasala sett í staðinn. Þá verða sæti bíósins tekin í gegn. „Í stað þess að kaupa ný sæti ætlum við að gera upp gömlu sætin. Því væri ekki verra ef fólk getur komið með 13 mm skiptilykla,“ segir Hrönn. Sömuleiðis verður skipt um sýningarvél í sal 1. „Við ætlum að kveðja gömlu filmuvélina, með sorg,“ segir Hrönn, en hún hafi ekki verið nýtt almennilega síðustu sjö ár og taki mikið pláss.
Hrönn segir að ákveðið hafi verið að leita á náðir sjálfboðaliða þar sem rekstur bíósins sé erfiður. „Við erum bara menningarstofnun sem hefur rétt náð að merja þetta. Við höfum síðustu þrjú ár getað skilað rekstrinum á núlli, en það er lítið aflögu.“
Hún segir Bíó Pardís búa að því að mörgum, kvikmyndagerðarmönnum og bíógestum, þyki vænt um bíóið og séu til í að leggja ýmislegt á sig. Þannig stóð fólki ekki á sama þegar útlit var fyrir að loka þyrfti bíóinu.
„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við fáum sjálfboðaliða. Þegar Bíó Paradís opnaði kom hingað her sjálfboðaliða, stjórnin okkar er öll skipuð sjálfboðaliðum og í eina skiptið sem gólfið var bónað þá voru það sjálfboðaliðar sem stóðu í því,“ segir Hrönn.