Brú í Reykjavík að hruni komin

Brúin liggur yfir Hólmsá, um gamla Suðurlandsveg.
Brúin liggur yfir Hólmsá, um gamla Suðurlandsveg. Ljósmynd/Aðsend

Eggert Norðdahl, ábúandi á Hólmi við Suðurlandsveg lokaði í dag brú yfir Hólmsá þar sem hún er að hruni komin. Tréstöplar undir brúnni eru fúnir og hefur brotnað úr þeim síðustu ár einkum í vetur. Í dag þótti Eggert nóg komið og lokaði brúnni. Hann hafði samband við verkfræðing frá borginni sem kom á svæðið og tók undir mat hans að brúin væri ónothæf.

Í samtali við mbl.is segir Eggert að nýjar teikningar af brúnni hafi legið fyrir í þrjú ár en einhverra hluta vegna hafi þær ekki komið á framkvæmdaáætlun borgarinnar. Setja þarf upp nýja stöpla báðum megin brúarinnar og endurnýja stálbitana sem liggja undir tréverkinu.

Byggð á þriðja áratug síðustu aldar

Brúin liggur um gamla Suðurlandsveg og var upphaflega byggð á þriðja áratug síðustu aldar en hefur þó verið endurnýjuð síðan. Hún er í dag notuð til að keyra upp að bænum á Hólmi og sumarbústöðum á svæðinu.

Eftir að brúnni var lokað opnaði Eggert á hjáleið, sem hann kallar vetrarleiðina, en hún fer framhjá Rauðhólum. Sú leið er þó ekki beysin og segir Eggert nauðsynlegt að ráðast í viðhald á henni ef hún á að geta sinnt umferð meðan beðið er eftir viðgerðum á brúnni.

Hann segist aðspurður bjartsýnn á að eitthvað verði gert í málunum nú, þrátt fyrir að hafa þurft að bíða svo lengi. Ekki sé um umfangsmikla framkvæmd að ræða þótt hún kunni að kosta nokkrar milljónir.

Stöplar brúarinnar eru fúnir.
Stöplar brúarinnar eru fúnir. Ljósmynd/Aðsend
Kortið sýnir staðsetningu brúarinnar með svörtum krossi. Vel að merkja …
Kortið sýnir staðsetningu brúarinnar með svörtum krossi. Vel að merkja er bærinn Hólmur ekki merktur á kortið. Kort/Já.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka