Árangur hefur náðst með samningum Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands um gjaldfrjálsar tannlækningar barna sem undirritaðir voru árið 2013, að sögn Jóhönnu Bryndísar Bjarnadóttur, formanns Tannlæknafélags Íslands.
Þannig hefur skemmdum og fylltum tönnum hjá tólf ára börnum fækkað á undanförnum áratug. Árið 2005 voru skemmdar tennur hjá tólf ára börnum í virku eftirliti að meðaltali 0,55 talsins, að því er fram kemur í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis.
Árið 2013 voru þær 0,50 en árið 2018 fækkaði þeim í 0,29. Eftir árið 2013 fækkaði skemmdum tönnum jafnt og þétt; strax árið 2014 var meðalfjöldinn farinn úr 0,50 í 0,39.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag væntir Jóhanna þess að samningurinn verði framlengdur í janúar 2021 en hann fellur annars úr gildi í lok þess mánaðar.