Hafa komið til landsins þrátt fyrir bann

Bresk einkaþota af gerðinni Embraer Legacy 135BJ lenti á Reykjavíkurflugvelli …
Bresk einkaþota af gerðinni Embraer Legacy 135BJ lenti á Reykjavíkurflugvelli í byrjun júlímánaðar. mbl.is/Árni Sæberg

Bandaríkjamenn geta komið hingað til lands með leyfi utanríkisráðuneytisins, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Landið er enn skilgreint sem áhættusvæði og er faraldur kórónuveiru á uppleið í ákveðnum ríkjum. Bandaríkjamönnum er almennt ekki leyft að koma til landsins.

Að sögn Stefáns Smára Kristjánssonar, rekstr­ar­stjóra flugafgreiðsluaðilans Ace FBO, hafa nokkrir komið hingað til lands með einkaflugi frá löndum þjóða sem hafa almennt ekki leyfi til þess að koma til Íslands. Þeir hafa fengið sérstaka undanþágu. 

Vísir greindi frá því í dag að Terrence Alan Crews, heimsþekktur bandarískur leikari sem er betur þekktur sem Terry Crews, hafi komið hingað til lands á dögunum. Spurður hvort Bandaríkjamenn hafi komið hingað í einkaflugvélum að undanförnu segist Þórólfur ekki vita það en ef svo er hafi Bandaríkjamennirnir fengið leyfi frá utanríkisráðuneytinu. 

„Á hverju það byggist veit ég ekki: Hvort það var vinnutengt eða hvað það nú var. Þeir lenda og fá leyfi til að lenda en þurfa eftir sem áður að fara í nákvæmlega sömu skimun og eftirlit og aðrir, hvort sem þeir eru frægir eða ekki frægir.“

Hitamæld reglulega og skimuð

Stefán vildi, í samtali við mbl.is, ekki gefa upp hvort Bandaríkjamenn hefðu ferðast til Íslands að undanförnu með einkaþotum, en sagði þó:

„Við höfum fengið hingað einstaklinga sem eru með undanþágu. Þá eru þeir bara með uppáskrifaðan pappír um heimild þegar landamæraeftirlitið mætir. Ef þeir eru ekki með það þá er þeim bara vísað til baka.“

Stefán segir að sérstakar varúðarráðstafanir séu gerðar í kringum þessa farþega. Fólkið sé hitamælt áður en það kemur til landsins og fer reglulega í veirupróf áður en það heldur af stað til Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert