Þjóðaröryggi er alltaf í forgangi

Afstaða íslenskra stjórnvalda hefur verið skýr og ekkert breyst segir …
Afstaða íslenskra stjórnvalda hefur verið skýr og ekkert breyst segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

„Ég var bara að sjá þessar fréttir og við eigum eftir að skoða þær en það bendir allt til þess að þeir hafi metið það þannig að þeir þyrftu að fara aðrar leiðir en þeir töldu í byrjun,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um þá ákvörðun Breta að banna búnað frá kínverska fjarskiptafyrirtækinu Huawei við uppbyggingu á 5G-neti í landinu.

„Bretar ætluðu sér alltaf að fara svolítið aðrar leiðir en aðrir og töldu sig vera í betra færi til þess enda hafa þeir mjög öflugan öryggisviðbúnað í sínu landi með öfluga leyniþjónustu,“ bætir Guðlaugur við.

Þurfa að skipta út öllum búnaði fyrir 2027

Bandaríkin hafa lengi verið tortryggin í garð Huawei og hafa meðal annars sagt að fyrirtækið hafi í meira en áratug haft „bakdyraaðgang“ að farsímakerfum sem fyrirtækið kemur að. Bandarísk yfirvöld hafa reynt að sannfæra bandamenn sína um að hefta aðgengi Huawei að mörkuðum sínum.

Bretar létu ekki sannfærast og ákváðu í janúar á þessu ári að leyfa Huawei að hafa aðkomu að uppbyggingu 5G-kerfisins þar í landi. Í dag tilkynntu þeir hins vegar að fjarskiptafyrirtækjum í Bretlandi yrði meinað að nota búnað frá Huawei við uppbyggingu á 5G-kerfi frá og með áramótum. Jafnframt yrði að vera búið að skipta út öllum búnaði frá Huawei í landinu fyrir 2027.

Mikilvægt að ríki líti á Ísland sem öruggt fjarskiptaumhverfi

Íslensk stjórnvöld hafa fylgst grannt með þróun mála hjá nágrannaþjóðum Íslands í tengslum við uppbyggingu á 5G-kerfi og aðkomu kínverska fjarskiptarisans að þeirri uppbyggingu. Guðlaugur Þór segir afstöðu stjórnvalda alltaf hafa verið skýra.

„Okkar afstaða hefur verið mjög skýr og hún breytist ekkert: Netöryggismál eru alvöru öryggismál og þjóðaröryggi er eitthvað sem við eigum alltaf að hafa í forgangi. Það er sömuleiðis þjóðaröryggismál fyrir Ísland að geta áfram átt greið fjarskipti við bandalagsríki og að þau liti á Ísland sem öruggt fjarskiptaumhverfi. Það er ekkert nýtt hvað okkur varðar,“ segir hann og bætir við:

„Það sem við höfum lagt áherslu á er að líta til nágrannalanda okkar. Þetta hefur verið mikið rætt á vettvangi Norðurlandanna og það eru lönd sem við lítum til – til hvaða aðgerða gripið hefur verið til þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka