Tveir skjálftar í Bárðarbungu

Sigketill í Bárðarbungu.
Sigketill í Bárðarbungu. mbl.is/RAX

Skömmu fyrir miðnætti, 23:41, varð jarðskjálfti af stærð 3 í suðaustanverðri Bárðarbunguöskjunni og um klukkustund síðar varð annar skjálfti á svipuðum stað að stærð 3,3.

Síðast varð skjálfti yfir 3,0 að stærð í Bárðarbungu þann 14. júní síðastliðinn. Skjálftar af þessari stærðargráðu eru algengir í Bárðarbungu og á þessu ári hafa orðið 10 skjálftar þar sem eru 3 eða stærri að stærð samkvæmt upplýsingum frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands.

13 þúsund skjálftar á tæpum mánuði

Skjálftavirkni hefur verið viðvarandi á svæðinu í kringum Grindavík undanfarna mánuði í tengslum við landris.

Jarðskjálftahrina við mynni Eyjafjarðar er enn yfirstandandi. Frá því að hrinan hófst 19. júní hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett yfir 13.000 skjálfta. Þrír skjálftar yfir 5 að stærð hafa mælst í hrinunni.

Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert