23 þúsund manns fá bætur

Ljóst er að erfið staða flugrekstrar og ferðaþjónustu er að …
Ljóst er að erfið staða flugrekstrar og ferðaþjónustu er að bitna hart á atvinnulífi Suðurnesja. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls voru 16.165 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok júnímánaðar og 6.742 í minnkaða starfshlutfallinu, eða samtals 22.907 manns. Meðalbótahlutfall þeirra sem voru í minnkuðu starfshlutfalli í júní var um 60%. Almennt atvinnuleysi var 7,5% í júní og hefur haldist svipað síðustu 3 mánuði, en það var 7,4% í maí og 7,5% í apríl.

Gera má ráð fyrir að það verði áfram svipað í júlí, eða á bilinu 7,3-7,7%, en hækki nokkuð í ágúst þegar áhrifa hópuppsagna á vormánuðum fer að gæta í atvinnuleysistölum og verði þá á bilinu 8-9%. Þetta kemur fram í frétt á vef Vinnumálastofnunar sem var birt um hádegið í gær. 

Atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli hefur á hinn bóginn lækkað hraðar en ráð var fyrir gert og var komið niður í 2,1% í júní, samanborið við 5,6% í maí og 10,3% í apríl þegar það var hvað mest. Gera má ráð fyrir að atvinnuleysi tengt þeirri leið fari niður undir 1% í júlí og lækki áfram niður í um hálft prósent í ágúst.

7.400 sagt upp í hópuppsögnum

Aðeins bárust þrjár tilkynningar um hópuppsagnir í júní þar sem sagt var upp 147 manns. Sú hrina hópuppsagna sem hófst í mars tengt COVID-19 faraldrinum virðist þar með hafa gengið niður. Alls hefur um 7.400 manns verið sagt upp störfum í hópuppsögnum síðustu mánuði hjá um 110 fyrirtækjum, að stærstum hluta í ferðaþjónustu.

Uppsagnir síðustu mánaða eru flestar að koma til framkvæmda nú frá maímánuði og fram í september. Nærri 4.000 manns munu hafa lokið uppsagnarfresti í byrjun ágúst og um 1.300 að auki í september.

„Gera verður ráð fyrir að stór hluti þeirra muni sækja um atvinnuleysisbætur þegar þar að kemur,“ segir í frétt Vinnumálastofnunar.

Gera má ráð fyrir að hlutfall þeirra sem eru á …
Gera má ráð fyrir að hlutfall þeirra sem eru á hlutabótaleiðinni fari niður í hálft prósent í ágúst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tæplega 8.500 útlendingar á atvinnuleysisskrá

Alls voru 8.487 erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá í lok júní, 6.656 í almenna bótakerfinu og 1.831 að auki í minnkuðu starfshlutfalli. Hlutfall erlendra ríkisborgara á almennu skránni er nú um 41% líkt og það var í desember og fram í febrúar.

Áætlað atvinnuleysi erlendra ríkisborgara er um 21,5% á heildina litið í júní, um 18,5% í almenna kerfinu og um 3,0% í minnkuðu starfshlutfalli. 

Alls komu inn 244 ný störf sem auglýst voru í vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun í júní. Um nokkuð fjölbreytt störf var að ræða en mest störf fyrir iðnaðarmenn eða 80 störf. Þetta eru fleiri störf en auglýst voru hjá stofnuninni í sama mánuði fyrir ári.

Hæst hlutfall atvinnulausra á Suðurnesjum

Samanlagt atvinnuleysi í almenna kerfinu og í minnkaða starfshlutfallinu fer lækkandi alls staðar á landinu sem skýrist fyrst og fremst af hratt minnkandi atvinnuleysi þeirra sem eru í minnkuðu starfshlutfalli. Á landinu öllu lækkar heildaratvinnuleysið úr 13,0% í 9,5% og á Suðurnesjum, þar sem atvinnuleysið er hvað mest, fer það úr 19,6% í 15,9%.

Hefðbundið atvinnuleysi helst á hinn bóginn lítið breytt í júní frá fyrri mánuðum, er nú 7,5%, var 7,4% í maí og 7,4% í apríl. Víðast hvar á landinu stendur það í stað eða minnkar nokkuð, nema á Suðurnesjum þar sem það eykst úr 12,2% í maí í 13,2% í júní og hefur raunar farið vaxandi jafnt og þétt allt þetta ár.

„Sem fyrr segir er almenna atvinnuleysið mest á Suðurnesjum eða 13,2% og hefur farið vaxandi síðustu mánuði. Ljóst er að erfið staða flugrekstrar og ferðaþjónustu er að bitna hart á atvinnulífi Suðurnesja, sem birtist í að almennt atvinnuleysi er að aukast yfir sumarmánuðina.

Atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli er enn hæst á Suðurnesjum, þó svo það hafi lækkað hratt síðustu mánuði líkt og annars staðar á landinu. Þannig eru um 45% atvinnulausra á Suðurnesjum í almenna bótakerfinu að koma úr starfi tengt flugsamgöngum og ferðaþjónustu samanborið við um 30% atvinnulausra á landinu öllu. Þá eru um 65% þeirra sem enn eru atvinnulausir tengt minnkuðu starfshlutfalli úr ferðaþjónustu og flugrekstri samanborið við um 45% á landinu öllu.

Næst mest er almenna atvinnuleysið 7,8% á höfuðborgarsvæðinu þar sem það hefur staðið í stað síðustu mánuði. Á Suðurlandi er það 6,4% í júní og hefur einnig breyst lítið síðustu mánuði. Á Norðurlandi eystra er almenna atvinnuleysið 5,1% í júní og hefur farið lækkandi síðan í apríl. Á Vesturlandi er atvinnuleysið nú í júní 4,6% hefur verið svipað síðustu mánuði. Á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og á Austurlandi er almenna atvinnuleysið innan við 4,0% og hefur farið lækkandi síðan í apríl.“

2.500 fyrirtæki sem nýta sér hlutabótaleiðina

Atvinnuleysi er heldur meira meðal karla en kvenna á landinu öllu, eða 9,7% meðal karla (7,5% almennt atvinnuleysi) og 9,3% meðal kvenna (7,4% almennt). Á Suðurnesjum er atvinnuleysið á hinn bóginn mun meira meðal kvenna en karla, eða 17,7% alls hjá konum, en 14,7% hjá körlum. Raunar er atvinnuleysi heldur meira meðal kvenna en karla alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum

Mjög hefur fækkað í hópi þeirra sem eru í minnkuðu starfshlutfalli. Alls fengu um 7.150 einstaklingar greiddar bætur í júnímánuði vegna minnkaðs starfshlutfalls og stærstur hluti þeirra eða 6.742 einstaklingar, voru í minnkuðu starfshlutfalli í lok mánaðarins.

Alls voru um 2.500 fyrirtæki að nýta sér þessa leið í júnímánuði en þegar mest var nýttu sér um 6.500 fyrirtæki þessa leið. Atvinnuleysi vegna þeirra sem skráðir voru í minnkað starfshlutfall í júní var 2,1% og var það mest 2,6% á Suðurnesjum, 2,4% á Austurlandi og 2,3% á Suðurlandi. Lægst var það 1,4% á Vestfjörðum og á Norðurlandi eystra.

„Sú fækkun sem á sér stað í minnkuðu starfshlutfalli skýrist af nokkrum þáttum. Að hluta til er fólk að fara aftur í sitt fyrra starf og að hluta til á uppsagnarfrest, sem að hluta til kemur fram í hópuppsögnum. Þá hefur breyttur lagarammi leitt til þess að mörg fyrirtæki hafa ekki möguleika eða áhuga á að nýta sér þessa leið.

Fólki í minnkuðu starfshlutfalli hefur fækkað hratt í öllum atvinnugreinum frá apríl og fram í júní. Mest hefur fækkað í farþegaflutningum úr um 2.200 manns í 54 í lok júní, í verslun og viðgerðaþjónustu úr um 6.800 í 901 í lok júní og í heilbrigðis- og félagsþjónustu og fræðslustarfsemi úr um 1.900 manns í 559 manns í lok júní.

Hlutfallsleg skipting hefur breyst nokkuð frá því nýting þessa úrræðis var í hámarki. Um 45% þeirra sem voru í þessu úrræði um minnkað starfshlutfall í lok júní voru starfandi í ferðaþjónustutengdum greinum. Hlutfallið var nokkru lægra í lok apríl eða um 37%, enda hefur fækkað mun hraðar í þessari leið í verslunarstarfsemi og fleiri atvinnugreinum. Karlar eru um 58% þeirra sem nýta sér úrræðið sem er nokkru hærra en hlutfall þeirra á vinnumarkaði. Hlutfall yngsta aldurshópsins, 18-29 ára, fer lækkandi og hlutfall erlendra ríkisborgara hækkar lítið eitt,“ segir á vef Vinnumálastofnunar.

Ungmennum án atvinnu fjölgar

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hefðbundnir atvinnuleitendur þ.e. þeir sem ekki voru með minnkað starfshlutfall voru 16.165 í lok júní, 8.846 karlar og 7.319 konur. Hefðbundið atvinnuleysi, þ.e. án minnkaðs starfshlutfalls var 7,5% og jókst úr 7,3% í maí.

Alls voru 1.963 hefðbundnir atvinnuleitendur á aldrinum 18-24 ára án atvinnu í lok júní í ár sem samsvarar um 7,5% skráðu atvinnuleysi.

Atvinnulausum ungmennum hefur fjölgað um 1.182 frá júní 2019 þegar fjöldi atvinnulausra á þessu aldursbili var 781. Hins vegar fækkaði þeim um 179 frá maí s.l.

Alls höfðu 2.700 hefðbundnir atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en 12 mánuði í lok júní, en 1.264 í júnílok 2019. Hefur þeim því fjölgað um 1.436 milli ára og hefur fjölgað síðustu þrjá mánuði sem rekja má að einhverju marki til falls Wow air fyrir ári síðan. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í 6-12 mánuði fer einnig fjölgandi, voru 3.273 nú í lok júní en 1.531 fyrir ári.

Atvinnulausum fjölgaði í öllum atvinnugreinum í júní 2020 frá júní 2019. Mesta fjölgunin meðal hefðbundinna atvinnuleitenda var í gisti- og veitingaþjónustu og í farþegaflutningum. Þá fjölgaði atvinnuleitendum mikið í ýmis konar persónulegri þjónustu, í starfsemi félaga og menningarstarfi og í mannvirkjagerð.

Einna minnst hefur fjölgun atvinnulausra verið síðasta árið í sjávarútvegi, í heilbrigðisþjónustu, fræðslustarfsemi og í upplýsinga- og fjarskiptastarfsemi. Að því er varðar fjölda atvinnulausra eftir starfsstéttum þá fjölgaði atvinnulausum mest meðal skrifstofufólks, vélafólks, starfsfólks við ýmis þjónustustörf og iðnaðarmanna. Minnsta aukningin eftir starfsstéttum var meðal starfsmanna í sjávarútvegi, verkafólks og sölu- og afgreiðslufólks.

Alls voru 6.656 erlendir ríkisborgarar hefðbundnir atvinnuleitendur (án minnkaðs starfshlutfalls) án atvinnu í lok júní. Þessi fjöldi samsvarar um 18,5% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara. Í fyrra á sama tíma voru 2.578 erlendir ríkisborgarar án atvinnu og hefur þeim því fjölgað mikið frá júní 2019.

Auk hefðbundinna atvinnuleitenda voru einnig erlendir ríkisborgarar á hlutabótaleið og má gera ráð fyrir að heildaratvinnuleysi erlendra ríkisborgara hafi verið nálægt 21,5% í júní. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá hefur aukist nokkuð í júní frá því í maí þegar það var um 39%, en er nú nær 41% líkt og það var í desember og fram í febrúar.

Flestir erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá komu frá Póllandi eða 3.418, sem er um 51% allra erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá. Því næst koma Litháar og Lettar en færri af öðrum þjóðernum

Í júní gaf Vinnumálastofnun út 115 atvinnuleyfi til útlendinga til að starfa hér á landi. Af útgefnum leyfum voru 44 til nýrra útlendinga á íslenskum vinnumarkaði og 71 leyfi var framlengt. Flestir sem fengu útgefið atvinnuleyfi í júní, hvort sem var nýtt eða framlengt, fengu sérfræðileyfi eða 42 leyfi. Þá voru gefin út 17 leyfi vegna fjölskyldusameiningar og eins 17 námsmannaleyfi.

Hér er hægt að lesa nánar um atvinnuleysi í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert