Flugfreyjufélagið viðurkennir mistök við samningagerð

Guðlaug L. Jóhannsdóttir, varaformaður Flugfreyjufélags Íslands
Guðlaug L. Jóhannsdóttir, varaformaður Flugfreyjufélags Íslands Kristinn Magnússon

Eftir undirritun kjarasamnings við Icelandair 25. júní s.l., sendi Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) bréf til félagsmanna, þar sem mistök við samningagerð eru viðurkennd og hörmuð. Félagsmenn voru hvattir til að leggja heildstætt mat á samninginn, en hann var felldur með rúmlega 72% atkvæða þann 8. júlí sl. Vísir sagði fyrst af málinu.

mbl.is hefur undir höndum bréf frá Guðlaugu L. Jóhannsdóttur, sem hún ritar fyrir hönd stjórnar og samninganefndar FFÍ. Bréfið er sent til félagsmanna, merkt „trúnaðarmál“ og er ódagsett en birt á lokuðum Facebook-hóp flugfreyja 30. júní. Í bréfinu segir m.a. „Við í stjórn og samninganefnd tilkynnum ykkur hér með ástæðu þess að kjörstjórn frestaði upphafi kosninga á nýjum kjarasamningi“ og að samningsaðila greini á um útfærslu og skilning tveggja greina.

Í bréfinu er rakið að misskilnings hafi gætt í tveimur ákvæðum samningsins sem undirritaður var og að samninganefnd FFÍ hafi fundað með ríkissáttasemjara og Icelandair um breytingar en „viðsemjandi okkar [er] ekki reiðubúinn að gera þær orðalagsbreytingar sem nauðsynlegar eru...“. Í bréfinu segir jafnframt: „Samninganefndin stendur sannarlega við undirskrift sína og gengst við þeim mistökum sem gerð hafa verið“ og lýsir vonbrigðum með að „beiðni um leiðréttingu var hafnað“.  Í lok bréfs segir: „Jafnt nú sem áður er mikilvægt að leggja heildstætt mat á nýundirritaðan kjarasamning áður en þið gangið til kosninga“.  

Segjast hafa orðið við beiðni FFÍ

mbl.is leitaði viðbragða frá forsvarsmönnum Icelandair um þær fullyrðingar sem birtast í bréfi FFÍ. Í svari þeirra kemur fram að í báðum þeim tilvikum sem um ræði hafi Icelandair orðið við beiðni FFÍ um breytingu á orðalagi áður en að samningur var undirritaður og ennfremur að breytingarnar hafi ekki haft áhrif á merkingu ákvæðanna, en sýni vel að þessi atriði hafi verið vel ígrunduð af hálfu FFÍ áður en gengið hafi verið til undirritunar.

Um fyrra ákvæði samnings segir í svari Icelandair að það hafi verið „hluti af þeim tilboðum sem samninganefnd Icelandair lagði til á síðustu vikum“ og að ákvæðið hafi verið „skýrt orðað og engin ástæða til að ætla að það hafi verið misskilið“. Sjáist það best á því að ákvæðið og áhrif þess hafi verið skýrt sérstaklega á kynningu FFÍ sem send var félagsmönnum. Þá segir Icelandair að vegna athugasemda um mögulegan misskilning hafi verið orðið við beiðni FFÍ um breytingu á orðalagi „og skrifað var undir samninginn með því orðalagi“.

Um síðara ákvæðið segir Icelandair að félagið hafi lagt mikla áherslu á að samræma reglur um vinnu- og hvíldartíma á við samninga við flugmenn, enda torveldi það mjög skipulagningu flugs sé þar ekki samhljómur. Líkt og með fyrra ákvæðið hafi komið fram athugasemdir frá samninganefnd FFÍ um endanlegt orðalag og hafi „samninganefnd Icelandair [orðið] við beiðni FFÍ um þessa breytingu“ með því orðalagi sem FFÍ hafi óskað eftir.

Áhrif á úrslit kosninga?

Eins og áður segir var kjarasamningur Icelandair og FFÍ undirritaður hjá ríkissáttasemjara þann 25. júní s.l.. Í samtali mbl.is við Guðlaugu sama dag var hún spurð hvort að hún mælti með samningnum og sagðist hún gera það. „Maður skrifar ekki undir eitthvað sem maður mælir ekki með“. Samkvæmt heimildum mbl.is var umrætt bréf sent út einhverjum dögum eftir undirritun.

Aðspurðir vildu forsvarsmenn Icelandair ekki hafa uppi getgátur um hvort að bréfið hafi haft úrslitaáhrif á niðurstöður atkvæðagreiðslu, en samningurinn var felldur með miklum meirihluta atkvæða. Samningafundur deiluaðila var haldinn hjá sáttasemjara í gær en ekki hefur verið boðað til nýs fundar. Ekki náðist í forsvarsmenn FFÍ við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka