Skrímslið, nýr sex tonna loftkastali og 1.720 fm að stærð, verður opnað um næstu helgi og hefur verið blásið upp í Öskjuhlíð.
Loftkastalinn er sá stærsti í heimi eftir því sem Gunnar Gunnarsson, forstjóri Perlunnar, kemst næst, en á síðustu árum hefur eignarhaldsfélagið Perla norðursins staðið að mikilli uppbyggingu á menningartengdri afþreyingu í Perlunni og sett upp fjölda náttúrusýninga sem yfir 300 þúsund gestir hafa sótt. Fjárfesting félagsins er á þriðja milljarð króna að sögn Gunnars.
Nú hyggst félagið gæða Öskjuhlíðina lífi en í loftkastalanum er stærðarinnar hindrunarbraut sem hefur margar skírskotanir til Íslands, að því er fram kemur í ViðskiptaMogganum í dag.