Verða af milljarða króna tekjum í ár

Secret Solstice fór fram íLaugardalnum í fyrra.
Secret Solstice fór fram íLaugardalnum í fyrra. mbl.is/Arnþór Birkisson

Tekjutap íslenskra hátíðarhaldara vegna faraldurs kórónuveiru hleypur á milljörðum króna. Flestum hátíðum hefur verið aflýst og aðrar verða haldnar með talsvert breyttu sniði. Í ákveðnum tilvikum sitja viðkomandi bakhjarlar uppi með háan fastan kostnað.

Þeir sem verða fyrir einna mestu höggi eru bakhjarlar stórra hátíða á borð við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og Secret Solstice. Í gær barst tilkynning þess efnis að fyrrnefnda hátíðin hefði verið blásin af með einu og öllu. Verða engir viðburðir á dagskrá sökum fjöldatakmarkana. Umræddar hátíðir velta hundruðum milljóna króna ár hvert.

Að sögn Víkings Heiðars Arnórssonar, framkvæmdastjóra Secret Solstice, nemur tekjutapið 5-600 milljónum króna. „Þegar sú staða kom upp í vor að það þyrfti að fresta hátíðinni vorum við sem betur fer í góðri stöðu fjárhagslega og allir erlendir listamenn sem áttu að koma fram tilbúnir að skuldbinda sig til þess að koma fram á næsta ári. Þá er verið að klára viðræður við íslenska listamenn. Tap hátíðarinnar vegna veirunnar er þess vegna bara fólgið í sokknum markaðs- og launakostnaði fram að frestun,“ segir Víkingur.

Auk framangreindra hátíða hefur fjölda annarra verið frestað, þar á meðal Neistaflugi í Neskaupstað, Mýrarboltanum á Ísafirði og Landsmóti hestamanna á Hellu. Í tilfelli síðastnefndu hátíðarinnar nemur beint tekjutap á annað hundrað milljónum króna. Þá er óbeinn tekjumissir jafnframt umtalsverður í öllum tilvikum.

Auk þessa hefur fjölda minni hátíða og samkoma verið aflýst eða frestað. Hversu mikið tekjutapið þar kann að vera er óljóst, að því er segir í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert