Þrjú einkafyrirtæki hafa sinnt akstri með flugfarþega milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Þau eru Airport Direct, Allrahanda GL ehf. og Kynnisferðir ehf. Tvö þau síðasttöldu innheimta virðisaukaskatt af sölu farmiða í flugrútur en ekki Airport Direct. Ferðir með leið 55 hjá Strætó, milli flugvallarins og Reykjavíkur, eru almenningssamgöngur og því undanþegnar greiðslu virðisaukaskatts.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kveðst Þórir Garðarsson, formaður stjórnar Allrahanda GL, kvaðst hafa sent fyrirspurn til ríkisskattstjóra um hvort akstur með flugfarþegana væri virðisaukaskattsskyldur eða ekki. Hann fékk svar á föstudaginn var.
„Það er alveg skýrt að það ber að innheimta virðisaukaskatt af akstri sem ekki er í svonefndum einkarétti,“ sagði Þórir. „Þessi niðurstaða kom okkur ekki á óvart þótt manni hafi fundist það freistandi að hafa rangt fyrir sér og geta þar með sniðgengið virðisaukaskattskerfið og ákveðið sjálfir að allar reglubundnar ferðir sem við höfum boðið upp á féllu undir undanþáguákvæði virðisaukaskattslaga og fengið þar með hundruð milljóna króna endurgreidd úr ríkissjóði. Það var samt mjög lítil von til þess að mínu áliti eftir alla þá vinnu sem ég meðal annars tók þátt í fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar, t.d. í starfshópi á vegum stjórnvalda í að setja mörk á milli almenningssamganga í einkarétti og reglubundinna ferða ferðaþjónustuaðila sem eru í samkeppni á markaðnum.“