Átján farþegavélar lenda í Keflavík í dag

Um 2.500 farþegar eru væntanlegir til landsins í dag. Ellefu …
Um 2.500 farþegar eru væntanlegir til landsins í dag. Ellefu vélar koma frá öruggum löndum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frá og með deginum í dag bætast ferðamenn frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi á lista með ferðamönnum frá Færeyjum og Grænlandi sem eru undanþegnir kröfum um skimun og sóttkví vegna kórónuveirunnar.

Á vef Isavia má sjá að von er á 18 farþegavélum til landsins, sem er svipað og síðustu daga. Búist er við allt að 2.500 farþegum. Af þessum 18 vélum koma 11 frá fyrrnefndum löndum, sem sóttvarnalæknir telur örugg. Fyrsta slíka vélin kom reyndar í nótt frá Kaupmannahöfn en hún átti að koma seint í gærkvöldi.

Nýja fyrirkomulagið mun gilda um vél EasyJet sem á að koma kl. 8 frá Luton, og síðan kemur hver vélin á eftir annarri yfir daginn og fram á kvöld. Þannig koma vélar SAS frá Ósló og Kaupmannahöfn, ein Lufthansa-vél frá Frankfurt, Wizz Air frá Vín og Varsjá, Norwegian frá Ósló og vélar Icelandair koma frá London, Kaupmannahöfn, París, Amsterdam og Frankfurt. Engar sérstakar ráðstafanir verða í Leifsstöð á vegum almannavarna eða Landlæknis þótt nýtt fyrirkomulag taki gildi í dag. Starfsfólk Isavia, lögreglan á Suðurnesjum og sýnatökufólk verða á staðnum.

„Forskráningarskylda er fyrir alla sem koma og ætti hún að beina fólki í rétta átt eftir lendingu. Starfsmenn munu svara spurningum á staðnum,“ segir Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi almannavarna, í svari til blaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert