Fangelsinu á Akureyri verður ekki lokað um næstu mánaðamót líkt og til stóð. Frá þessu greinir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í færslu á Facebook.
Í síðustu viku óskaði dómsmálaráðherra eftir því við ríkislögreglustjóra að lagt yrði mat á hugsanlegan viðbótarkostnað lögreglunnar á Akureyri af lokuninni, en fyrir liggur að lögreglan hefur í gegnum árin nýtt sér þjónustu fangavarða. Þar sem úttektinni verður ekki lokið þegar loka átti fangelsinu, hefur lokuninni verið frestað til 15. september.
Tilkynnt var um lokunina í síðustu viku og þá sagt að betri nýting fengist á fjármunum með því að vista þá 8-10 fanga, sem að jafnaði dvelja þar, annars staðar.
Bæjarstjórn Akureyrar mótmælti ákvörðuninni harðlega og sagði að ekkert samráð hefði verið haft við bæjaryfirvöld. Sama gerði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sem sagði að með lokuninni væru réttindi fanga, sem þyrftu nú í auknum mæli að afplána fjarri fjölskyldum sínum, skert. Þá samrýmdist ákvörðunin ekki stefnu ríkisstjórnarinnar um fjölgun starfa utan höfuðborgarsvæðisins.