Bjarni Fel Sportbar í Austurstræti 20 hefur ekki verið opnaður eftir samkomubann. Enda stendur til að gera breytingar þar innanhúss. Umsókn um byggingarleyfi hefur verið til umfjöllunar hjá byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, en Vivaldi Ísland ehf. stendur að baki henni.
Líklega eru fáir sem gera sér grein fyrir því, þegar þeir panta bjórglas á Bjarna Fel, að þeir séu staddir í einu elsta húsi Reykjavíkur, 215 ára gömlu. Barinn heitir sem kunnugt er í höfuðið á Bjarna Felixsyni, hinum þjóðþekkta íþróttafréttamanni.
Fram kemur í minnisblaði Minjastofnunar Íslands, sem fylgir með beiðni Vivaldi, að húsið Austurstræti 20 sé timburhús að stofni til frá árinu 1805 og var friðað árið 1990. Árið 1862 var reist tvílyft viðbygging við austurenda hússins og á 20. öld voru gerðar miklar breytingar á ysta og innra borði vegna veitingareksturs(Hressingarskálinn). Vesturhluti hússins hefur haldið meginformi sínu en gluggaskipan er breytt sem og allar klæðningar. Ekki hefur farið fram byggingarsöguleg rannsókn á húsinu til að kanna hvað sé eftir af upphaflegum viðum.
Fyrirhuguð breyting á Austurstræti 20 felst í því að fjarlægja nýlegar innréttingar og milliveggi. Sett verður upp úðarakerfi og húsið hólfað niður í aðskilin brunahólf fyrir veitingarekstur og samkomuhald. Breytingar á yngri hlutum hússins (Hressó) verða óverulegar en í vesturenda er ætlunin að fjarlægja hluta gólfsins og opna milli hæða. Þá er ætlunin að gera timburgrind hússins sýnilega. Ekki verða gerðar breytingar á ytra borði að svo stöddu en veggir og gluggar verða málaðir.
„Minjastofnun Íslands veitir hér með heimild til að fjarlægja seinni tíma innréttingar, klæðningar og milliveggi úr Austurstræti 20 vegna fyrirhugaðra breytinga. Óheimilt er að fjarlægja byggingarhluta sem ætla má að séu hluti af hinu upphaflega húsi. Þegar búið verður að fjarlægja seinni tíma klæðningar fer Minjastofnun fram á að gerð verði byggingarsöguleg úttekt á máttarviðum og klæðningum hins upphaflega húss sem í ljós munu koma,“ segir Minjastofnun meðal annars.
Í bók Páls Líndal um sögustaði Reykjavíkur, sem út kom 1986, segir að húsið Austurstræti 20 hafi komið tilhöggvið frá Svíþjóð. Það var reist árið 1805 fyrir sýslumann Gullbringu- og Kjósarsýslu. Í marga áratugi þar á eftir bjuggu í húsinu fjölmargir embættismenn landsins og fjölskyldur þeirra. Árið 1932 hófst í vesturendanum rekstur hins þekkta veitingahúss Hressingarskálans.
Í beiðni Vivaldi til borgarinnar sem eiganda er tiltekið að samtals verði leyfi fyrir 380 gesti í báðum veitingastöðum, Hressingarskálanum og Bjarna Fel Sportbar. Tekið er fram í umsókninni að Prikið ehf. muni greiða fyrir leyfið. Stjórnarformaður Vivaldi Ísland ehf. er samkvæmt hlutafélagaskrá Jón Stephenson von Tetzchner.