„Ábyrgðin hlýtur að vera á samningsaðilum“

Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna
Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna mbl.is/Hari

„Við vorum boðaðir á fund í morgun og okkur tilkynnt að til þessa gæti komið,“ segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, um ákvörðun Icelandair að láta flugmenn starfa sem öryggisliðar um borð í flugvélum félagsins nú fyrst búið er að segja upp öllum flugfreyjum og flugþjónum.

Icelandair gaf út tilkynningu um uppsagnir allra flugfreyja og flugþjóna fyrir skömmu og í henni kom fram að flugmenn Icelandair myndu starfa tímabundið sem öryggisliðar í stað flugfreyja. Þá kom þar fram að Icelandair myndi hefja viðræður við annan samningsaðila en Flugfreyjufélag Íslands.

Flugmenn séu ekki að ganga með beinum hætti í störf flugfreyja

Jón Þór segist ekki líta svo á að flugmenn séu með beinum hætti að ganga í störf flugfreyja og bendir á að um sé að ræða breytingu í flugrekstrarhandbók Icelandair sem flugmenn verði að fara eftir.

„Samkvæmt loftferðarlögum og flugrekstrarfyrirmælum berum við ábyrgð á öryggi um borð. Þetta eru flugrekstrarfyrirmæli sem okkur ber að fara eftir,“ segir hann en bætir við:

„Við þurfum að skoða þetta okkar megin hvað þetta þýðir en við getum ekki vikið okkur undan vinnuskyldu.“

Vilja bara tryggja að samgöngur stöðvist ekki

Er hægt að skylda ykkur til að sinna þessum störfum?

„Þetta er náttúrulega öryggishlutinn sem þarna er vísað til en störf flugfreyja eru töluvert víðtækari. Við erum að skoða þetta okkar megin og sendum tilkynningu þess efnis á félagsmenn. Meðan við erum að fara yfir þessi mál biðjum við flugmenn um að víkja sér ekki undan vinnuskyldu,“ segir Jón Þór og bætir við:

„Við viljum bara tryggja að samgöngur stöðvist ekki hérna.“

Spurður hvort að með því að sinna starfi öryggisliða um borð eftir að flugfreyjum og flugþjónum hefur verið sagt upp séu flugmenn að grafa undan kjarabaráttu þeirrar stéttar segir Jón Þór að hann verði að vísa á Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair. Flugmenn geti ekki ekki borið ábyrgð á kjarabaráttu sem þeir eru ekki hluti af.

„Ábyrgðin hlýtur að vera á samningsaðilum. Ég held að fólk verði að axla sína ábyrgð sjálft og reyna ná samningum. Við vonum bara innilega að það takist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert