Karlmaður var í vikunni dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir ofbeldi í nánu sambandi, fíkniefnalagabrot og umferðalagabrot. Er maðurinn sakfelldur fyrir þrjár líkamsárásir á hendur eiginkonu sinni sem hann framdi á tveggja ára tímabili. Konan á þrjár dætur, þar af tvær með manninum og voru þær allar viðstaddar tvær árásirnar.
Í ákæru kemur fram að hann hafi í eitt skiptið slegið konuna í andlit og svo sparkað í hana þannig að konan hlaut marbletti. Í öðru tilfelli hafi hann meðal annars tekið hana hálstaki og sparkað í hana. Í þriðja skiptið hrint henni, tekið hálstaki og kýlt konuna í andlit, kvið og bak.
Lögregla var kölluð til vegna málanna og bar vitni um að konan hefði meðal annars í þessum tilvikum verið með sýnilega áverka.
Maðurinn játaði umferðalaga- og fíkniefnabrotin en neitaði sök að öðru leyti og sagði meðal annars að konan hefði beitt hann andlegu ofbeldi. Þá fengi hún auðveldlega marbletti vegna járnskorts. Sagðist hann ekki kannast við lýsingar konunnar í skýrslutökum hjá lögreglu.
Konan sjálf dró framburð sinn til baka fyrir dómi og í stað þess að gefa skýrslu gaf hún stutta yfirlýsingu þar sem hún sagðist hafa ýkt þau atvik sem um ræddi. Sagði hún að þau hefðu tekist á og viljað skaða hvort annað. Hún hafi jafnframt ýkt að hann hafi lamið sig og veitt högg í maga og tekið hana hálstaki. Sagði hún áverkana komna til vegna veikinda.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að lýsingar konunnar hjá lögreglu hafi verið nokkuð ítarlegar. Þá komi ekki neinar raunhæfar skýringar í framburði mannsins um áverka konunnar. Meðal annars komu læknar fyrir dóminn sem höfnuðu því alfarið að sjúkdómar eða járnskortur gætu skýrt áverkana.
Telur dómurinn því ljóst að maðurinn sé sekur um þau atvik sem hann er ákærðu fyrir og er hann sakfelldur og fékk sem fyrr segir fjögurra mánaða dóm.