Flugfreyjur ekki tilbúnar í nauðsynlegar breytingar

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Niðurstaða atkvæðagreiðslu um undirritaðan kjarasamning Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) gefur til kynna að meirihluti félagsmanna er ekki tilbúinn að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru.

Þetta ritar Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í bréfi til flugfreyja og flugþjóna Icelandair.

Þar segir hann það ömurlegt að vera í þessari stöðu og það sársaukafulla ákvörðun að segja upp öllum flugfreyjum og -þjónum, en að það sé nauðsynlegt til að reyna að bjarga félaginu frá falli. „Tíminn er á þrotum og við erum uppi við vegg.“

Bogi segir að líkt og margoft hafi komið fram sé landslagið gjörbreytt frá því sem áður var og samkeppnin hafi harðnað mikið. Til að eiga möguleika í þessu umhverfi þurfi Icelandair að bregðast við líkt og önnur félög hafi gert á liðnum árum með verulegum breytingum á kjarasamningum við flugstéttir.

Þannig hafi Icelandair og Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) tekist að semja um gagngera uppstokkun á samningum sem skili sér í verulegri hagræðingu. „En því miður hefur það ekki tekist í viðræðum við FFÍ,“ skrifar Bogi.

Þetta ritar Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í bréfi til …
Þetta ritar Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í bréfi til flugfreyja og flugþjóna Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert svigrúm til að gefa meira eftir

„Skýrt hefur komið fram hjá forsvarsmönnum FFÍ að Icelandair hafi gengið of langt í hagræðingarkröfum og þurfi að gefa þær eftir. Staðreyndin er þó sú að félagið hefur ekki svigrúm til að gefa meira eftir og því þjóna frekari fundarhöld milli aðila ekki tilgangi. Niðurstaða kosningar um þann samning sem lagður var fyrir í lok júní gefur til kynna að meirihluti félagsmanna FFÍ er ekki tilbúinn í þær breytingar sem nauðsynlegar eru.“

Bogi segir viðræður því komnar í hnút og að rangfærslur um vinnubrögð samninganefndar Icelandair hafi því miður haft áhrif á ferlið, „ekki síst bréf formanns FFÍ til félagsmanna á upphafsdegi kosninga um undirritaðan samning.“

Þá segist Bogi vilja leiðrétta nokkuð sem komið hafi fram í tengslum við meintar rangfærslur. Þannig hafi engu verið lætt inn á lokametrunum og samninganefnd Icelandair hafi ekki hafnað leiðréttingum heldur hafnað því að gera efnislegar breytingar sem hefðu haft veruleg áhrif á heildarniðurstöðu samningsins. „Þau tvö atriði sem hafa verið til umræðu voru margoft rædd á fundum í formlegu ferli hjá Ríkissáttasemjara og auðveldlega hægt að rekja.“

„Þar sem viðræðum við FFÍ hefur nú verið slitið verður flugfreyjum og flugþjónum sem starfa hjá félaginu sagt upp og flugmenn félagsins munu frá og með mánudeginum 20. júlí nk. starfa tímabundið sem öryggisliðar um borð. Icelandair gerir ráð fyrir að hefja viðræður við annan samningsaðila á íslenskum vinnumarkaði, um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuliða hjá félaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka