Flugfreyjufélag Íslands undirbýr nú verkfallsaðgerðir gegn Icelandair. Þetta upplýsir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður félagsins, í samtali við mbl.is. Undirbúningur þess er hafinn með stuðningi ASÍ og alþjóðlegra verkalýðssamtaka.
Icelandair sagði í morgun upp öllum flugfreyjum félagsins, en starfsmenn eru enn á uppsagnarfresti og hefðu því annars starfað áfram næstu mánuði.
Icelandair hefur gefið út að félagið hyggist semja við nýjan aðila um störf flugfreyja en fyrst um sinn munu flugmenn sinna störfum flugfreyja um borð. Aðspurð segir Guðlaug það mikil vonbrigði að Icelandair ætli vinnufélögum þeirra, flugmönnum, að ganga í þeirra störf en hún hefur rætt um málið við formann Félags íslenskra atvinnuflugmanna.
„Ég vil trúa því að fólk fari eftir settum reglum. Þetta er ljótur leikur sem á ekki að líðast,“ segir hún. Þá sé í hæsta máta óeðlilegt ef Icelandair ætli sér að stofna eigið félag enda séu stéttarfélög jú félög launþega.
Guðlaug segir að útspil Icelandair hafi komið félagsmönnum á óvart. „Þetta kom okkur algjörlega að óvörum og setur okkur í þá ömurlegu stöðu að þurfa að hefja undirbúning á verkfallsaðgerðum.“ Hún segir það félaginu til skammar hvernig Icelandair ætli að láta við starfsfólk sitt.
Guðlaug bendir á að Icelandair hafi þegið fjárstuðning frá íslenska ríkinu, í formi hlutabóta og greiðslu launa í uppsagnarfresti, auk þess sem félaginu hefur verið heitið láni takist félaginu að semja við kröfuhafa. „Ég ætlast til þess að þetta rati á borð ríkisstjórnarinnar og að þessi framkoma gagnvart íslenskum launþegum sé ekki liðin.“
Fréttin verður uppfærð.