Þegar aðilar utan Schengen-svæðisins hafa áhuga á því að koma til Íslands geta þeir sent fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins.
Fyrirspurnirnar koma frá fjölbreyttum hópi en snúist þær um að fara bara í frí er svarið nei, jafnvel þó að fólk sé dauðvona og eigi þá ósk eina að fara til Íslands. Dæmi er um slíkar aðstæður en þar hefur ekki verið hægt að gera undantekningar.
Nokkur fjöldi fólks fær þó að koma inn til landsins á viðskiptaforsendum en þegar erindið er þess eðlis metur starfshópur frá Íslandsstofu, atvinnuvegaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu umsóknina og gefur álit til Útlendingastofnunar. Í þessu ferli hafa Íslendingar oft samband og fara þess á leit að til dæmis sérfræðingar á vegum fyrirtækja þeirra fái að koma inn í landið jafnvel þó að frá áhættusvæðum séu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.