Að sögn forsvarsmanna Icelandair, hefur nýr samningsaðili ekki verið ákvarðaður í stað Flugfreyjufélags Íslands. Ekki hefur verið rætt við Íslenska flugstéttarfélagið.
Í tilkynningu Icelandair sem send var til kauphallar í dag segir að félagið hafi slitið viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og öllum flugfreyjum og flugþjónum sem starfa hjá félaginu verði sagt upp störfum. Icelandair gerir ráð fyrir því að hefja viðræður við annan samningsaðila á hinum íslenska vinnumarkaði, um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuliða hjá félaginu.
Í svari við fyrirspurn mbl.is segir Icelandair að ekki verið tekin frekari ákvörðun um við hvaða félag eða samtök skuli ræða en tekið er fram að það „verður aðili á íslenskum markaði, það [sé] alveg ljóst.“
Íslenska flugstéttarfélagið er stéttarfélag flugmanna og flugfreyja, sem stofnað var af flugmönnum er störfuðu fyrir WOWair. Félagið hefur þegar gengið til saminga við flugfélagið Play. Í samtali við mbl.is segjast forsvarsmenn félagsins að ekki hafi verið leitað til félagsins og það hafi enga aðkomu að málinu.