Segja upp öllum flugfreyjum og flugþjónum

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. mbl.is/Kristinn Magnússon

Icelandair hefur sagt upp öllum flugfreyjum og flugþjónum félagsins.

Flugmenn Icelandair munu frá og með 20. júlí n.k. starfa tímabundið sem öryggisliðar um borð í flugvélum félagsins. Icelandair slítur viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og gerir fyrir að hefja viðræður við annan samningsaðila á hinum íslenska vinnumarkaði.

Í fréttatilkynningu sem send var til Kauphallar rétt eftir klukkan eitt í dag, lýsir Icelandair því yfir að kjaraviðræðum Icelandair hafi verið lokið án árangurs: „Það er mat félagsins að lengra verður ekki komist í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og hefur þeim verið slitið“ segir m.a. í tilkynningunni og „Icelandair sér sig jafnframt knúið til að segja upp þeim flugfreyjum og flugþjónum sem starfa hjá félaginu“. Í tilkynningunni er sagt að flugmenn félagsins muni frá og með 20. júlí starfa tímabundið sem öryggisliðar um borð. Ekki liggja fyrir nákvæmari upplýsingar um þá ráðstöfun t.d. hversu margir flugmenn munu starfa um borð á hverjum tíma og hvert hlutverk þeirra er með nákvæmum hætti.

Ákvörðunin kemur í kjölfar þeirra atburðarrásar sem átt hefur sér stað á undanförnum mánuðum og varðar fjárhagslega endurskipulagningu Icelandair. Fyrirhugað hlutafjárútboð er áætlað í næsta mánuði og allt kapp hefur lagt á samninga við hagsmunaaðila. Í tilkynningunni segir „Tíminn er á þrotum og við neyðumst til að leita annara leiða“. Icelandair segist gera ráð fyrir því að hefja viðræður við annan samningsaðila, en ekki er tiltekið nánar hver sá aðili er.

„Við höfum lagt allt kapp á að ná samningum við Flugfreyjufélag Íslands og lagt í þeim tilgangi fram fjölmörg tilboð sem öllum hefur verið hafnað. Með þeim kjarasamningi sem felldur var af meðlimum FFÍ gengum við eins langt og mögulegt var til að koma til móts við samninganefnd FFÍ. Sá samningur hefði tryggt ein bestu kjör fyrir störf flugfreyja og flugþjóna sem þekkjast á alþjóðamarkaði.

Tíminn er á þrotum og við neyðumst til að leita annarra leiða. Þessi ákvörðun er mér afar þungbær en nauðsynleg þar sem ljóst er að samtalið milli félaganna tveggja fer ekki lengra.  Það hvílir mikil ábyrgð á okkur sem stjórnum félaginu að tryggja rekstur þess til framtíðar og því miður sjáum við ekki annan kost í stöðunni en að fara þessa leið.

Það er sárt að vera í þessari stöðu gagnvart afburðasamstarfsfólki sem hefur staðið vaktina með félaginu til fjölda ára, svo eftir hefur verið tekið,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert