Smálækir orðnir að ám

Þrátt fyrir að mikið vatn sé í þorpinu virðist þó …
Þrátt fyrir að mikið vatn sé í þorpinu virðist þó enn ekki hafa orðið stórfellt tjón. Ljósmynd/Róbert Schmidt

„Það er mikill vatnsflaumur hérna og mikil úrkoma. Allir smálækir eru orðnir að ám og það er rosalega mikið vatn í þorpinu, niðurföllin hafa hreinlega ekki undan,“ segir Róbert Schmidt, leiðsögumaður á Suðureyri, í samtali við mbl.is.

Hann segir dælubíla varla hafa undan því að losa stíflur, auk þess sem hann hafi heyrt af því að óhreint vatn hefði komist í sundlaugina og hún orðin brún.

Þrátt fyrir að mikið vatn sé í þorpinu virðist þó enn ekki hafa orðið stórfellt tjón. „Það kom lítil spýja hérna niður fjallið, en það varð nú ekkert tjón. Það er búið að vera mikið vatn og er mikið vatn alls staðar í þorpinu, en ég held það sé nú ekkert stórtjón, ekki ennþá.“

Róbert er innfæddur Suðureyringur og man ekki eftir svona vatnsflaumi í bænum. „Það hefur kannski verið svona einhvern tíma en það er þá allavega mjög langt síðan. Þetta er allavega með því mesta held ég.“

„Það er bara inn eftir öllum firðinum ofboðslega mikið vatnsveður og það flæðir yfir veginn inni við Sel. Vegagerðin er að reyna að losa þar. Ræsin hafa ekki undan, það er bara svoleiðis. Hér erum við bara rólegir og menn hafa verið að hjálpast að.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert