„Við sjáum ekki tjón á þjónustuhúsinu en það þarf að skoða heildrænt hvernig svæðið sjálft utandyra hefur farið. Þjónustuhúsin sluppu við tjón í bili allavega,“ segir Alberta Guðbjartsdóttir, rekstrarstjóri tjaldsvæðisins í Tungudal á Ísafirði, í samtali við mbl.is.
Bruná, sem liggur þvert í gegnum tjaldsvæðið, flæddi yfir bakka sína og það þurfti að taka veg í sundur til að koma í veg fyrir frekara tjón.
Alberta segir flesta hafa farið af tjaldsvæðinu; sumir hafi fært hjólhýsin sín af svæðinu yfir á bílastæðið en nokkur hjólhýsi séu enn á tjaldsvæðinu. Það þýðir að þau eru nú föst á tjaldsvæðinu því vegurinn við brúna yfir Bruná var tekinn í sundur.
Í dag stendur til að reyna að laga veginn í smástund svo hægt verði að koma hjólhýsunum í burtu. Töluvert vatnsmagn er enn í ánni segir Alberta.
„Það var haft samband við alla áður en vegurinn var tekinn í sundur og fólki gefið færi á að færa hjólhýsin sín. Þessir aðilar sem eru ennþá eftir voru upplýstir um að vegurinn færi í sundur og það væri óvíst hvenær við kæmum honum í gagnið aftur,“ segir Alberta sem ætlar að ræða við hjólhýsaeigendurna í dag og taka stöðuna á þeim.