Enn sitja samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair við samningaborð ríkissáttasemjara hvert þær voru boðaðar í kvöld eftir að Icelandair kaus að slíta viðræðum við FFÍ og segja öllum flugfreyjum sínum upp í gær.
Um er að ræða úrslitatilraun til að semja og sagðist Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari vonast til þess að samningar myndu nást þrátt fyrir atburði gærdagsins í samtali við mbl.is í gær. Það ætti að sýna hversu mikilvægt þykir að deiluaðilar nái saman að Aðalsteinn flaug í dag, laugardag, suður til Reykjavíkur frá Ísafirði til að hitta samninganefndirnar í Karphúsinu.
Icelandair sagði upp öllum flugfreyjum félagsins í gær og boðaði að flugmenn myndu ganga í störf þeirra uns samið yrði við annað stéttarfélag. Félagið hefur ekki gefið upp hvaða stéttarfélög þetta kunni að vera en af nýjustu tíðindum er ljóst að ekki er öll nótt úti enn um að samningar náist við gamla stéttarfélagið.