Pétur Magnússon
„Frá lögfræðilegu sjónarmiði sé ég ekkert sem er brot á lögum,“ segir Lára Valgerður Júlíusdóttir lögmaður og sérfræðingur í vinnurétti í samtali við mbl.is.
Í gærmorgun sagði Icelandair upp öllum flugfreyjum félagsins. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi, föstudag, að flugmenn muni ganga í störf flugfreyja á mánudag, á meðan fyrirhugað er að semja við annað flugfreyjufélag.
„Atvinnurekendur hafa heimild til að segja upp fólki með tilteknum fyrirvara. Þetta eru ekki opinberir starfsmenn, heldur starfsmenn á almennum markaði,“ segir Lára. Hún segir að svo framarlega sem þeim er sagt upp með löglegum fyrirvara og sé greitt laun út uppsagnarfrest sé uppsögnin lögleg.
Lára telur þó ákvörðun Icelandair fordæmalausa. „Eins og oft hefir verið sagt þá lifum við á fordæmalausum tímum, og þetta er algjörlega þannig.“ Erfitt sé að vita hvernig fólk bregst við ástandi líkt því sem blasir við Icelandair.
Í gærkvöldi greindi mbl.is frá því að Flugfreyjufélag Íslands undirbúi nú verkfallsaðgerðir gegn Icelandair, og undirbúi þær aðgerðir með stuðningi ASÍ og alþjóðlegra verkalýðssamtaka.
Að sögn Láru sé hætta á að verkfallsaðgerðir Flugfreyjufélagsins muni mögulega hagnast Icelandair, þar sem ekki þurfi að greiða laun á meðan verkfalli stendur yfir.