Rannveig Oddsdóttir hefur unnið Laugavegshlaupið í hvert skipti sem hún hefur tekið þátt: 2007, 2018 og síðast í ár, 2020. Í dag bætti hún meira að segja mótsmetið í hlaupinu og hljóp alla 55 kílómetrana á 5 klukkustundum og 37 sekúndum.
mbl.is tók stöðuna á Rannveigu nú í kvöld: „Mér líður bara vel, það er auðvitað gott þegar maður nær að bæta sig. Jú, maður finnur alveg fyrir því að maður var að gera eitthvað og ég verð kannski ekki eins létt á mér á morgun en það eru bara eðlileg eftirköst. Ég er góð eftir föngum og engin meiðsl,“ segir Rannveig.
Lagt var af stað frá Landmannalaugum í morgun og veðurspáin var ekki sérstök. Rannveig segir þó að vel hafi ræst úr henni. „Mér var kalt þegar við vorum að leggja af stað og aðeins framan af en síðan var þetta fínt á leiðinni. Við vorum með vindinn í bakið og það er töluverður munur á að hlaupa 50km undan vindi eða á móti. Aðstæðurnar voru fínar í dag,“ segir hún.
Rannveig er lektor í kennslufræðum við Háskólann á Akureyri og er að verða 47 ára gömul í desember. Hlaup hafa verið hennar áhugamál og hún segir að við sigur eins og þennan skipti öllu máli að ná að undirbúa sig vel. „Ég er búin að hlaupa lengi og fyrir þetta hlaup hef ég tekið mörg löng hlaup. Ég hef hlaupið á stígum og líka gengið upp á fjöll og mér finnst muna miklu um undirbúninginn,“ segir hún.
Laugavegshlaupið er með stærri hlaupakeppnum á landinu og eitt af elstu utanvegahlaupunum. Leiðin er 55 kílómetrar og fyrir þá sem velta vöngum yfir því hvernig fólk fer að því að hlaupa aðra eins vegalengd utanvega, segir Rannveig undirbúninginn þar skipta sköpum. Hún mælir ekki með að ana út í Laugavegshlaup sem fyrsta keppnishlaupið, en að æfingin skapi meistarann.
Rannveig hljóp ekki í Laugavegshlaupinu á milli 2007 og 2018 en í millitíðinni afrekaði hún ýmislegt í öðrum hlaupum, svo sem þegar hún náði öðrum besta árangri íslenskra kvenna í heilu maraþoni frá upphafi árið 2012 þegar hún lauk maraþoni á tímanum 2:52:39.