Úrslitatilraun til að semja

Guðlaug L. Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. Samninganefnd félagsins er stödd …
Guðlaug L. Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. Samninganefnd félagsins er stödd í húsnæði ríkissáttasemjara þar sem gerð er úrslitatilraun til að ná samningum. Kristinn Magnússon

Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair gera nú úrslitatilraun til þess að komast að samkomulagi um kjarasamning flugfreyja við félagið. Nefndirnar funda í húsnæði ríkissáttasemjara eins og stendur.

Í dag hafa samskipti farið fram á milli aðilanna tveggja, sem síðan enduðu með fundi nú í kvöld. Áreiðanlegar heimildir mbl.is herma að nú sé gerð lokatilraun til að gera kjarasamning, þrátt fyrir atburðarás gærdagsins.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari kallaði nefndirnar á fund til sín en hann hefur hvatt til þess að reynt sé að semja þrátt fyrir allt, síðast í samtali við mbl.is í gær. Í dag flaug hann suður til Reykjavíkur frá Ísafirði til að hitta samninganefndirnar í Karphúsinu.

Icelandair sagði upp öllum flugfreyjum félagsins í gær og boðaði að flugmenn myndu ganga í störf þeirra uns samið yrði við annað stéttarfélag. Félagið hefur ekki gefið upp hvaða stéttarfélög þetta kunni að vera en af nýjustu tíðindum er ljóst að ekki er öll nótt úti enn um að samningar náist við gamla stéttarfélagið.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert