Vitaflokkurinn vinnur tólf tíma vinnudag

Hér hafa starfsmenn flokksins stillt sér upp við vitann á …
Hér hafa starfsmenn flokksins stillt sér upp við vitann á Dyrhólaley. Ingvar er lengst til vinstri.

Vitaflokkur Vegagerðarinnar gerir víðreist um landið á sumrin og dyttar að vitum. Farið er í um tuttugu vita á hverju sumri en unnið er tólf tíma á dag, tíu daga í senn.

Á heimasíðu Vegagerðarinnar er skemmtilegt spjall við verkstjórann, Ingvar Hreinsson. Hann byrjaði í vitavinnunni árið 1996 og alla tíð síðan hafa sumrin snúist um viðgerðir á vitum landsins með tilheyrandi ferðalögum og fjarveru frá heimilinu. „Það er útiveran sem ég heillast mest af. Á vorin er maður farinn að iða í skinninu að komast út á land,“ segir Ingvar sem hefur ekki verið heima hjá sér á sumrin í 24 ár.

„Jú, konan er nú orðin pínu þreytt á því,“ svarar hann glettinn þegar hann er spurður út í hvað fjölskyldunni finnist um þetta.

Meginreglan er að vitaflokkurinn fari í hvern vita landsins á fimm ára fresti. Því þarf að fara í um tuttugu vita á hverju sumri. Í sumar eru aðeins tvö stór verkefni. Annars vegar við Reykjanesvita og hins vegar Dyrhólavita. Meðal þess sem flokkurinn gerði í Dyrhólaey var að múrkústa alla veggi að utan, líka vélarhúsið. Mála þökin, skipta um rúður í ljóshúsinu og þétta sprungur í veggjum sem er ekki lítið verk enda eru veggir vitans fimmtíu sentímetra þykkir. „Þetta var haft svona þykkt í gamla daga því þá voru engar járnabindingar,“ útskýrir Ingvar en vitinn var byggður árið 1927.

Flokkurinn vinnur langan vinnudag í löngum törnum. „Við vinnum tólf tíma á dag, frá átta til átta og oft lengur ef við fáum gott veður og von er á rigningu. Inn á milli koma rólegri dagar. Við byrjum yfirleitt á nýju verki á mánudegi og vinnum tíu daga, komum heim síðdegis á fimmtudegi vikuna á eftir og byrjum svo aftur á mánudegi,“ segir Ingvar.

Þrettán starfa í vitaflokknum á sumrin, fjórir fastir starfsmenn og níu sumarstarfsmenn. Margir sumarstarfsmenn koma aftur ár eftir ár, en á hverju sumri eru teknir inn einhverjir nýliðar. „Það er gaman að vera umkringdur ungu fólki. Það er líf í því,“ segir Ingvar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert