Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins, segist bjartsýn á að flugfreyjur muni samþykkja þann samning sem undirritaður var á milli Icelandair og samninganefndar Flugfreyjufélagsins nú á öðrum tímanum í nótt. Hún staðfestir við mbl.is að búið sé að draga uppsagnir frá í gær til baka.
Í samtali við mbl.is segir Guðlaug að samningurinn sé sambærilegur þeim samningi sem áður hafði verið gerður en felldur af félagsmönnum. Þó hefðu verið gerðar breytingar á tveimur atriðum sem höfðu verið ágreiningsatriði, en það er annars vegar ákvæði um aukafrídag eldri flugfreyja og svo svokölluð sex daga regla.
„Við erum mjög sátt og göngum frá borði bjartsýn að geta lagt þetta fyrir okkar félagsmenn,“ sagði hún við blaðamann mbl.is í karphúsinu eftir undirritunina. „Þetta byggir á þeim samningi sem við undirrituðum í júní og með breytingum sem við teljum að muni leiða til sáttar.“
Spurð hvort þessi samningur bjargi þeirri stöðu sem upp var komin segir Guðlaug að með þessu séu flugfreyjur „í verki að sýna okkar og leggja okkar að mörkum að aðstoða félagið í þeirri erfiðu aðstöðu sem félagið er í.“
Spurð nánar út í samninginn segir Guðlaug að í grunninn sé Flugfreyjufélagið að mæta hagræðingarkröfu Icelandir. „Flugfreyjufélagið er ekki með miklar kröfur í þessum samningi. Við erum að taka þátt í að aðstoða félagið á þessum erfiðum tímum,“ segir hún.
En hvað með þær uppsagnir sem greint var frá í gær. „Það er búið að draga uppsagnirnar frá í gær til baka,“ staðfestir Guðlaug.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari sagði eftir undirritunina að um erfiðar viðræður hefði verið að ræða. „Þetta voru mjög erfiðar viðræður en það sem landaði þessu var sameiginleg ástríða flugfreyja og flugþjóna og forystumanna fyrir félaginu.”