Eftir yfirferð sérfræðinga á Veðurstofu Íslands hefur stærð jarðskjálftans sem varð um 10 kílómetra norðvestur af Gjögurtá laust eftir klukkan þrjú í nótt verið endurmetin sem 4,4, ekki 4,7, að stærð.
Þrátt fyrir það er enn um að ræða stærsta skjálftann sem mælst hefur á svæðinu frá 21. júní þegar skjálfti 5,8 að stærð mældist.
Um 80 eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið, einn þeirra að stærð 3,3 klukkan fimm mínútur yfir sjö í morgun.
Skjálftahrinan við mynni Eyjafjarðar hófst 19. júní og hefur sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett yfir 14.000 skjálfta síðan þá. Þrír skjálftar yfir 5 að stærð hafa mælst í hrinunni.