Unnur Gunnarsdóttir varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits segir að fylgst sé með framgöngu verkalýðsforystunnar í tengslum við aðkomu Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna að Icelandair.
Báðir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hafa kallað eftir því að Fjármálaeftirlitið taki til skoðunar orð Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, um að hann hyggist beina því til stjórnarmanna á hans vegum í lífeyrissjóðnum að sniðganga Icelandair ef það semur ekki við Flugfreyjufélag Íslands.
Þau orð voru látin falla áður en nýr kjarasamningur var undirritaður í gær, en engu síður sagði Bogi Nils í viðtali við Sprengisand í dag að FME hlyti að skoða þessa „skuggastjórnun“ Ragnars.
Unnur segir að málið hafi ekki verið tekið til sérstakrar athugunar. „En við fylgjumst með öllum svona málum og metum það á öllum stigum hvort það sé tilefni til frekari athugunar. FME fylgist nú þessum orðaskiptum sem fram fara í fjölmiðlum og metur hvort tilefni er til að grípa eitthvað inní,“ segir hún.
Gagnrýni Boga og Halldórs byggist á því að jafnvel þó að formaður VR tilnefni stjórnarmenn í lífeyrissjóðnum eigi hann ekki að hafa áhrif á ákvarðanir þeirra. Ragnar Þór hefur litið öðruvísi á og hefur hótað flugfélaginu að stjórnarmenn sem hann hafi tilnefnt muni ekki taka þátt í aukinni fjárfestingu í félaginu.
Unnur brýnir á sama hátt og Bogi og Halldór fyrir stjórnarmönnum að þeir eigi að vera sjálfstæðir í sínum störfum. „Hagsmunasamtökum hefur verið treyst til að tilnefna stjórnarmenn en þó að þau tilnefni þá ráða þau ekki hvernig ákvarðanir eru teknar innan stjórnanna. Hér gildir sú meginregla eins og ávallt að þeim sem sitja í stjórnum lífeyrissjóða ber að fara að eigin sannfæringu og vera óháðir hagsmunasamtökunum,“ segir Unnur.