Það er af sem áður var að skemmtanalíf í miðbæ Reykjavíkur sé einkum háð á tvennum vígstöðvum, annars vegar í Bankastræti og nærliggjandi strætum og hins vegar vestan Lækjargötu í Austurstræti og við Ingólfstorg.
Ný þungamiðja er að færa sig upp á skaftið. Það er öldurhúsaþyrping á horni Klapparstígs og Laugavegar. Hún er orðin mikilvæg miðstöð í bænum og sést það best á miklum viðbúnaði leigubíla á svæðinu helgi eftir helgi.
Bílaumferðin á Klapparstíg gengur í gegnum göngugötuna Laugaveg og á krossgötunum eru leigubílar í nánast viðvarandi stíflu báða dagana hverja helgi. Bílarnir raða sér upp upp úr níu og mynda óformlega leigubílaröð sem endurnýjast með mjög stöðugum takti. Viðskiptin ná síðan vitaskuld hámarki þegar fólk er sent út á götu klukkan ellefu, þegar börum er lokað samkvæmt lögum.
Það er mikið um dýrðir á þessu litla svæði: Kaldi bar, Veður bar, Kíkí, Bravó, Lebowski bar, Kaffibrennslan, Irishman og Jazzy's. Þetta eru staðirnir á sjálfu horninu en steinsnar frá, neðar við Laugaveginn, er staðurinn Bastard og ofar á Laugaveginum Public House og Tíu sopar.
Bragi Skaftason rekur síðastnefnda Tíu sopa en stóð áður að Veðurbarnum, sem var opnaður á umræddu horni árið 2016. Hann er því þekkingarmaður um gatnamótin. „Þetta er í raun og veru eldgamall kjarni, hann hefur bara aldrei verið svona sterkur. Það er fjölbreytt og gott úrval af stöðum hérna, sem virðast í þokkabót vera reknir á eðlilegan hátt,“ segir hann í spjalli við mbl.is.
Bragi opnaði Veður ásamt öðrum þegar ekki var eins vænlegt umhorfs á staðnum og nú er. Þá var Rosenberg að leggja upp laupana, Skelfiskmarkaðurinn ekki opnaður og almennt ekki eins mikið um að vera á svæðinu. Bragi og félagar sáu þó að þeirra innkoma myndi ekkert gera nema styrkja svæðið en í húsnæðinu var fyrst listagallerí.
Sögulega séð mætti líta svo á að á þessu horni sé í raun og veru frekar um endurnýjun lífdaga að ræða en helbera nýlundu. Áður var Sirkus á Klapparstíg 30 og þar áður Grand rokk. Þar var handagangur í öskjunni og sömuleiðis á Bíóbarnum heitnum rétt hjá á horni Hverfisgötu og Klapparstígs.
Spá Veðurmanna um að svæðið ætti eftir að styrkjast með tímanum rættist og frá 2017 hefur stemningin bara aukist. Það þýðir þó ekki að hún verði dræmari annars staðar, eins og á áðurnefndum þungamiðjum við Bankastræti og Austurstræti.
Bankastrætisklasinn breiðir raunar úr sér út í hliðarstræti og alveg inn á Hverfisgötu í norðri með Röntgen, stað sem er í þann mund að opna þar sem Essensia var og einnig Mikka ref, sem Dóri DNA er að fara að opna á móti Þjóðleikhúsinu. Í viðtali við mbl.is um þá opnun sagði Dóri meðal annars um samkeppnisumhverfið á svæðinu: „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir.“ Á sama hátt nær umræddur klasi nú lengra suður frá Bankastræti upp Ingólfsstræti, lengra en að Dönsku kránni, nefnilega að Spánska barnum.
Í Austurstræti og við Ingólfstorg er áratugalöng hefð fyrir skemmtanalífi og sumir staðir þar hafa staðist tímans tönn, eins og Austur og English Pub (2007). Fjölmargir nýir staðir hafa þó bæst við á síðustu árum, Fjallkonan, Pablo Discobar, 203 hans Herra Hnetusmjörs, Skúli Craftbar, The Drunk Rabbit og svo mætti lengi telja.