Risastór orð látin falla á föstudaginn

ASÍ

Drífa Snædal forseti ASÍ segist fegin að samningar hafi náðst milli Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands en að stór orð hafi fallið á föstudaginn sem erfitt verði að líta framhjá. 

„Það var ánægjulegt að viðsemjendur settust aftur niður og auðvitað er það eitthvað sem á að gerast þegar samningar eru felldir. Þá á að setjast niður og reyna að ná nýjum samningum,“ segir Drífa í samtali við mbl.is.

Samningur milli Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands var undirritaður í nótt og uppsagnir Icelandair á hendur öllum flugfreyjum félagsins, sem tilkynntar voru á föstudaginn, voru í kjölfarið dregnar til baka.

Drífa segir boltann vera hjá flugfreyjum, en samningurinn fer í atkvæðagreiðslu hjá félagsfólki Flugfreyjufélags Íslands. Atkvæðagreiðslunni lýkur 27 júlí.

Voru tilbúin að bregðast harkalega við

„Það voru hins vegar risastór orð látin falla á föstudaginn, um að sniðganga viðsemjendur sína, og það er mikið áhyggjuefni ef það á að fara að beita slíkum kröfum á vinnumarkaði.“

Í tilkynningu Icelandair á föstudaginn kom fram að félagið hygðist hefja við viðræður við annan samningsaðila á íslenskum vinnumarkaði um framtíðarkjör öryggis- og þjónustuaðila hjá félaginu.

Drífa segir að þótt samningar hafi náðst sé þvert á móti hægt að líta á útspilið sem jákvætt fyrir íslenska verkalýðsbaráttu. „Við vorum líka tilbúin í að bregðast mjög harkalega við, enda var fullt tilefni til þess.“

„Það hefur verið lán að Flugfreyjufélag Íslands hefur verið innan vébanda ASÍ, þannig við höfðum möguleika á að styðja þau með félagslegum aðgerðum,“ segir Drífa.

„Þetta verður bara að hafa sinn gang núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert