Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti í samskiptum við Aðalstein Leifsson ríkissáttasemjara í tengslum við fund sem sáttasemjari boðaði Icelandair og Flugfreyjufélag Íslands á í gærkvöldi. Fundinum lauk um tvöleytið í nótt eftir að kjarasamningur hafði verið undirritaður.
Spurð hvort hún hafi knúið á um að sáttasemjari boðaði til fundarins segir Katrín: „Við ríkissáttasemjari vorum í samskiptum um þetta mál já. En það er sáttasemjara að ákveða að boða til þessa fundar í gær. Hann sneri nú heim úr sínu ferðalagi til að gera það en við vorum að sjálfsögðu í miklum samskiptum um þetta mál.“
Um leið og skrifað var undir nýjan kjarasamning voru uppsagnir allra flugfreyja félagsins, sem taka áttu gildi á mánudag, dregnar til baka. Þær vöktu þó hörð viðbrögð þegar þær voru kynntar. „Þessi deila var komin á mjög óheppilegan stað og í harðan hnút,“ segir Katrín. „En stóra málið er að hún leystist á þann hátt sem svona á að leysast.“
„Þessar lyktir eru auðvitað ánægjulegar enda er það þannig að svona deilur á að leysa við samningsborðið. Þess vegna var mjög mikilvægt að deilendur brugðust við því þegar ríkissáttasemjari boðaði þau til fundar í gær og gerðu þessa úrslitatilraun,“ segir Katrín.
Atkvæðagreiðslu meðal flugfreyja um nýjan samning lýkur 27. júlí og hlutafjárútboð flugfélagsins á sér stað um miðjan ágúst, en samningar við flugfreyjur eru meðal forsendna fyrir því að það geti farið fram.
Á þessum rúma sólarhring sem flugfreyjunum virtist ætla að vera sagt upp var rætt um að samið yrði við annað flugfreyjufélag, sem talsmenn félagsins sögðu að yrði íslenskt. Katrín segir að ekki hafi staðið til að semja við erlent starfsmannafélag.
„Það kom auðvitað mjög skýrt fram af hálfu félagsins að það stæði ekki til að leita til erlendra aðila enda höfum við lagt á það áherslu að þetta sé félag á íslenskum vinnumarkaði sem starfi samkvæmt íslenskum kjarasamningum,“ segir Katrín.
Ef hlutafjárútboðið gengur að óskum og þeir tæpu 30 milljarðar safnast sem vonir standa til um mun íslenska ríkið útvega félaginu lán. Spurð hvort stjórnvöld hefðu gert kröfu um að samið yrði við íslenskt félag ef veita ætti slíkt lán segir Katrín: „Við höfum einfaldlega talað fyrir því að þetta félag sé á íslenskum vinnumarkaði og starfi í því umhverfi. Það er kannski stóra línan í þessu máli.“
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður velferðarnefndar, gagnrýndi viðbragðaleysi ríkisstjórnarinnar við ákvörðun Icelandair í samtali við mbl.is í gær. Mikið af aðgerðum stjórnvalda hafi miðast við að styðja flugfélagið, og Helga sagði að félag sem hafi verið að fá „svo ofboðslegan stuðning“ á síðustu mánuðum megi ekki vera í stöðu til þess að „taka bara ákvörðun um að knésetja heilt stéttarfélag.“
Katrín ítrekar umrædda stóru línu: „Það er auðvitað og eins og hefur ítrekað komið fram, að þetta fyrirtæki nýtur velvildar enda flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi en líka á íslenskum vinnumarkaði og með íslenska kjarasamninga,“ segir hún.