Að sögn Árna Guðmundssonar, formanns Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, hefur áfengisauglýsingum íslenskra fyrirtækja á samfélagsmiðlum fjölgað mikið á undanförnum misserum.
Tilefni samtals blaðamanns og Árna er áfengi drykkurinn „Bara“ frá Ölgerðinni, sem hefur auglýst drykkinn m.a. á Instagram og hefur auk þess útbúið þar til gerða Instagram-síðu sem helguð er hinum nýja drykk. Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir löggjöfina óskýra en tekur fram að það markaðsefni sem útbúið hafi verið fyrir hinn nýja drykk sé „ekki að okkar skapi“.
„Innlendir áfengisframleiðendur hafa í mörg ár óskað eftir að sitja við sama borð og erlend vörumerki að koma vörum sínum á framfæri. Hafa ber í huga að áfengislöggjöfin var samin þegar við vorum með svarthvítt sjónvarp. Erlend vörumerki koma sér óhindrað á framfæri á Íslandi á samfélagsmiðlum. Við höfum talað fyrir því að leyfa auglýsingar en með miklum takmörkunum og komið með tillögur að skýrum reglum hvað þetta varðar. Þá er vert að benda á að þessi skilaboð voru aðeins sýnileg þeim sem eru yfir tvítugt og því hæpið að tengja þetta við ungmenni,“ segir Andri í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.