Andrés Magnússon ráðinn fulltrúi ritstjóra

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon

Andrés Magnússon hefur verið ráðinn fulltrúi ritstjóra við Morgunblaðið frá og með deginum í dag.

Andrés hóf störf í blaðamennsku hjá Morgunblaðinu árið 1986 en hélt síðar til Pressunnar, Eintaks og síðar DV, auk þess sem hann var leiðbeinandi hjá Prenttæknistofnun. Auk hefðbundinnar blaðamennsku fékk hann snemma áhuga á tölvu- og tæknihlið útgáfustarfsemi og var frumkvöðull í tölvugrafík og skjáumbroti fjölmiðla. Hann var einn stofnenda Kjarnorku, eins af fyrstu veffyrirtækjum á Íslandi, en hóf aftur störf á Morgunblaðinu árið 1996 á nýstofnaðri netdeild Morgunblaðsins og tók þátt í undirbúningi og uppsetningu fréttavefjar Morgunblaðsins, mbl.is, sem hefur verið mest sótti fréttavefur landsins frá fyrsta degi. Um aldamót réðist hann til Íslenskrar erfðagreiningar og fékkst þar við vefþróun, m.a. við gerð Íslendingabókar. Hann sneri aftur í blaðamennsku árið 2005 við stofnun Blaðsins en réðist til Viðskiptablaðsins 2007, þar sem hann hefur verið við störf síðan, nú síðast sem ritstjórnarfulltrúi, en þar hefur hann m.a. ritað vikulega fjölmiðlagagnrýni.

Andrés hefur verið búsettur á Englandi undanfarinn áratug en flutti aftur til Íslands í upphafi mánaðar. Hann er 55 ára gamall, sonur Magnúsar Þórðarsonar og Áslaugar Ragnars, sem bæði voru blaðamenn á Morgunblaðinu, en eru nú látin. Hann er kvæntur Auðnu Hödd Jónatansdóttur blaðamanni og eiga þau sex börn.

Morgunblaðið býður hann velkominn til starfa enn á ný.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert