Hriktir í stoðum íslensks vinnumarkaðar

Flugfreyjur funduðu í dag, en þar var nýr kjarasamningur kynntur.
Flugfreyjur funduðu í dag, en þar var nýr kjarasamningur kynntur. mbl.is/Arnþór

Það hrikti í stoðum íslensks vinnumarkaðar við tilkynningu Icelandair um einhliða slit á samningaviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) föstudag. Hrint var af stað atburðarás sem á fáa sína líka og mörg þung orð hafa fallið í kjölfarið.

Á laugardag bárust þau tíðindi að aðilar væru sestir að samningaborðinu að nýju og aðfaranótt sunnudags bar nýundirritaður kjarasamningur dagsins ljóst. Þessi hraða og óvenjulega atburðarás hefur vakið margar spurningar.

Í samtali við mbl.is segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, að í þessari atburðarás komi fram „taktar sem við höfum ekki áður séð á íslenskum vinnumarkaði“. Þarna komi fram sú nýlunda að atvinnurekendur telji sig þess umkomna að sniðganga löglegt stéttarfélag og velja þess í stað að finna nýtt félag sem er ódýrari kostur, án þess að það sé nánar skilgreint. Hún segir að þar á bæ muni menn ekki eftir viðlíka aðferðarfræði frá því að lög um stéttarfélög og vinnudeilur voru sett árið 1938.

Drífa segir að þetta sé „gríðarlegt áhyggjuefni“ og undrast að Samtök Atvinnulífsins (SA) hafi lagt blessun sína yfir þessa vegferð. Hún segist mjög hugsi yfir því að flugmenn hafi lagt blessun sína yfir því að ganga í störf flugfreyja í stað þess að sýna samstöðu með samstarfsfólki.

mbl.is leitaði viðbragða Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA. Hann bendir á að félagið hafi verið í samningaviðræðum í 19 mánuði og segir ekkert hafi skort á samningsviljann af þeirra hálfu. Hann segir allar fullyrðingar um viljaskort úr lausu lofti gripnar „sérstaklega í því ljósi að við undirrituðum kjarasamning sem FFÍ felldi síðan“. Komið hafi verið á leiðarenda og ekkert annað í stöðunni en að leita nýrra úrræða.

Flugfreyjur funduðu í dag, en þar var nýr kjarasamningur kynntur.
Flugfreyjur funduðu í dag, en þar var nýr kjarasamningur kynntur. mbl.is/Arnþór

Brot á lögum?

Eins og Morgunblaðið fjallar um í dag eru ólíkar skoðanir á því hvort að framganga Icelandair sé brot á 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar skarast álit Magnúsar M. Norðdahl, deildarstjóra lögfræðideildar ASÍ, sem telur að tilgangur Icelandair hafi verið að hafa áhrif á afstöðu starfsmanna félags sem stóð í kjaradeilu; og álit Ragnars Árnasonar, sem lýsir aðgerðum Icelandair sem rekstrarákvörðun, sem ekki snýr að stéttarfélagsaðild. Aðspurð segir Drífa að í ljósi þess að atburðarrásin endaði með undirritun kjarasamnings, sé ólíklegt að á þetta álitamál muni reyna fyrir félagsdómi. Því verði spurningunni að öllum líkindum ósvarað.

Svarar ekki hvort að um stefnubreytingu sé að ræða

Viðmælendur sem mbl.is ræddi við í dag telja tvímælalaust að atburðir síðustu helgar hafi mótað ákveðin tímamót í þeirri aðferðarfræði og þeim samskiptum sem viðhöfð hafa verið hér á landi síðustu áratugi. Þannig sé hefðbundið lagalegt úrræði atvinnurekanda vinnustöðvun, sem mjög lítið hafi verið beitt frá setningu laganna. Aðspurður um það úrræði segir Halldór Benjamín að „allar leiðir hafi verið skoðaðar“.

Drífa bendir á að harkaleg viðbrögð hafi dregið Icelandair aftur að samningarborðinu, því sé ekki hægt að tala um happasæla vegferð, en lýsir þó yfir áhyggjum af þessari þróun. Hún segir að þetta hafi „varpað ljósi á mikilvægi þess að verkalýðshreyfingin standi saman og sé í heildarsamtökum sem geti bakkað hvort annað upp í kjaradeilum“. Aðspurður um hvort að skilja megi þessa nálgun sem stefnubreytingu innan SA, segist Halldór ekki geta tjáð sig um það.

Segir þörf á endurskoðun laga

Halldór segir það skoðun sína að íslensk vinnulöggjöf sé „algerlega úrelt og barn síns tíma“. Því til stuðnings bendir hann á að eftir undirritun „lífskjarasamninga“ sé SA búið að gera 120 kjarasamninga.

Hann segir að kjarasamningar séu alltof margir og dreifðir og nauðsynlegt sé að setja gólf á hversu margir geti verið samningsaðilar, sem hann nefnir að geti í sumum tilvikum verið örfáir einstaklingar. Hann bendir á að lög um stéttarfélög og vinnudeilur séu orðin 82 ára gömul og samin í gjörólíku umhverfi frá því sem nú er.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka