„Þetta er náttúrlega eldvirkt svæði“

Horft yfir Bláa lónið með fjallið Þorbjörn í baksýn.
Horft yfir Bláa lónið með fjallið Þorbjörn í baksýn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við teljum að þessi virkni tengist landrisinu við Þorbjörn að einhverju leyti en virknin er þó búin að færast nokkuð austar. Hún er núna við Fagradalsfjall – þetta er sirka átta kílómetrum austar en við sáum virknina við Þorbjörn en við erum bara að skoða hvað er nákvæmlega í gangi.“

Þetta segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, skjálftafræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Jarðskjálfti 5,0 að stærð varð á Reykjanesskaga klukkan 23:36 og átti skjálftinn upptök sín tæpan kílómetra suðvestur af Fagradalsfjalli. Skjálfti af stærðinni 3,1 fylgdi í kjölfarið og sex aðrir skjálftar stærri en þrír fylgdu í kjölfarið.

Í morgun mældist svo skjálfti af stærðinni 4,6 sem átti upptök sín 3,7 kílómetra vestur af Fagradalsfjalli.

Spurð um möguleikann á gosi eða frekara landrisi segir hún alltaf líkur á því þó að það verði líkega ekki í náinni framtíð.

„Þetta er náttúrlega eldvirkt svæði og það kemur gos á Reykjanesskaganum einhvern tímann en við sjáum ekki nein merki um að gos verði í náinni framtíð,“ tekur hún skýrt fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert