„Undanfarið hafa verkefnin bara verið að aukast og málum sem hafa komið til okkar fjölgað talsvert,“ segir Ingi B. Poulsen, fyrrverandi umboðsmaður borgarbúa.
Eins og Morgunblaðið hefur greint frá var starfsemi umboðsmanns borgarbúa færð til innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar fyrr í júlímánuði. Hið sama var gert við starfsemi persónuverndarfulltrúa borgarinnar.
Ingi segir hugmynd um flutning ekki nýja af nálinni, þar sem ljóst hafi orðið fljótlega eftir stofnun embættisins árið 2013 að það yrði umfangsmeira en áður var talið. Hann hefur gegnt starfi umboðsmanns Reykjavíkurborgar frá stofnun embættisins.
„Ég ákvað sjálfur að nýta þennan tímapunkt til þess að hleypa öðrum að. Í flestum borgum sem við berum okkur saman við er átta ára skipunartími í störfum sem þessum. Þetta er mjög krefjandi starf og mikilvægt að tryggja reglulega endurnýjun og þar með framþróun verkefnanna,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag.