Vilja kynhlutlausa búningsklefa

Sundlaug Kópavogs.
Sundlaug Kópavogs. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Fulltrúar Pírata, Samfylkingar og BF Viðreisnar hafa lagt til að bæjarráð Kópavogs samþykki að bæta aðgengi að ókyngreindum búningsklefum í sundlaugum bæjarins. 

Kynhlutlausir klefar henta meðal annars transfólki og öðrum sem falla ekki inn í kynjatvíhyggjuna eftir því sem fram kemur í greinargerð. 

„Mikil aukning er nú á fjölda trans barna og unglinga en sú þróun á sér stað um öll vesturlönd um þessar mundir og stafar af aukinni umræðu og auknum réttindum trans fólks í þessum löndum. Trans börn og ungmenni, eins og önnur börn og ungmenni, eru skólaskyld og meðal annars skyld til að taka þátt í sundkennslu. Það að ekki séu til klefar við hæfi fyrir hluta þessa hóps en að hann sé á sama tíma skyldaður til að taka þátt í sundi er því algjörlega óviðunandi,“ segir í greinargerðinni. 

„Þar að auki þarf ekki að fjölyrða um þá heilsufarsbót sem sundiðkun er. Transfólk er í aukinni hættu á ýmsum heilsufarskvillum, svo sem þunglyndi og kvíða. Það að aðgengi þeirra að sundstöðum sé skert getur aukið enn á þennan vanda.“

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, segir að tillagan hafi komið til eftir að hún hafi hafi rekið sig á að ekki væri hægt að fá aðgang að læstum sérklefa í sundlaug Kópavogs. Hún segir það eiga að vera sjálfsagt fyrir öll sem þess þurfa að fá aðgang að einkaklefa án þess að þurfa að gefa nokkuð upp hver ástæða þess sé. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert