Stefnt er á að bygging Kársnesskóla við Skólagerði verði boðin út í ágústmánuði. Byggingin verður reist úr KLT timbureiningum og verður auk þess Svansvottuð. Þar til húsa verða leik- og grunnskólanemendur á fyrsta stigi. Þetta kemur fram á vef Kópavogsbæjar.
Framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir að verklok byggingarinnar verði í maí 2023, en nýr Kársnesskóli verður 5.750 fermetrar að flatarmáli. Þar til skólinn er risinn verða lausar skólastofur við Kársnesskóla nærri Vallargerði nýttar fyrir starfsemi skólans, en þær hafa verið í notkun undanfarin ár.
Verkfræðistofan Mannvit sá um heildarhönnun skólans að loknu útboði en Batteríið og Landslag ehf. voru í teyminu með Mannviti. Hönnunarstjóri hönnunarteymisins var Jón Ólafur Ólafsson arkitekt.