Unnið er um þessar mundir við endurbyggingu hafskipabryggju og gerð nýrrar hafnaraðstöðu á Bíldudal. Aukin umsvif þar í bæ, bæði laxeldi og starfsemi kalkþörungaverksmiðju, hafa kallað á uppbyggingu.
Viðlegukantar við höfnina eru fullnýttir og hún er of lítil fyrir þann iðnað sem nú er á svæðinu.
Í fyrri áfanga verksins, sem nú er unnið að, er stálþil framan við kalkþörungaverksmiðjuna lengt og eldra þil við hafskipabryggju endurnýjað. Nú er verið að reka niður stálþil og í framhaldi af því hefst lagnavinna. Þess er vænst að steypa megi þekjuna næsta sumar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.