Faraldur sem við þurfum að lifa með

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Sýni voru tekin úr 1.600 farþegum við landamæraskimun í gær, en um 3.000 komu hingað til lands. Ekkert virkt kórónuveirusmit greindist en beðið er eftir niðurstöðum úr mótefnamælingu frá tveimur einstaklingum. 

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

47.000 sýni hafa verið tekin við landamærin frá því landamæraskimun hófst 15. júní. Átján virk smit hafa greinst og 90 óvirk. Þórólfur segir að hægt sé að fullyrða að nánast ekkert innlent smit sé í gangi hér á landi. Hann segir að við séum komin með góða reynslu og þekkingu á smithættu af ferðamönnum og vitum hvernig við eigum að verjast veirunni. 

Þórólfur segir ekki áformað að taka lönd af hættulista en verið sé að skoða að gera það um mánaðamótin þó svo að engin endanleg ákvörðun hafi verið tekin. 

Þórólfur segir að við stöndum á krossgötum, nú eins og áður í faraldrinum. Hann segir alveg ljóst að faraldurinn sé ekki á undanhaldi í heiminum, þótt síður sé. Hann segir að þetta sé faraldur sem við þurfum að lifa með næstu mánuði og jafnvel ár. 

Fram til þessa hefur stjórnunin á þessum faraldri verið í ætt við krísustjórnun en Þórólfur segir að nú sé tími til kominn að breyta um áherslu og færa viðbrögðin yfir í rútínuvinnu, venja okkur á nýja hugsun og aðgerðir gegn faraldrinum. Þá segir Þórólfur að það muni líklega taka ár eða jafnvel lengri tíma að markaðssetja nýtt bóluefni við faraldrinum en nýlegar niðurstöður úr prófunum lofi góðu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert