Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GRÓ var við fiskveiðieftirlit í gær. Gæslan sinnir almennu fiskveiðieftirliti auk þess að fylgjast með að banni við lagningu silungsneta á ákveðnum tímum sé framfylgt.
Í samtali við mbl.is segir Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri hjá Landhelgisgæslunni, að til þess að sinna eftirlitinu þurfi að fljúga þyrlunni lágflugi en hún sást meðal annars á sveimi í Eyjafirði í gær. „Þetta er bara hluti af okkar hefðbundnu verkefnum,“ segir Auðunn.
Eftirlitið bar árangur því fyrir norðan, þó ekki í Eyjafirði, fundust ólögleg silungsnet sem gerð voru upptæk.