Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu íbúa við Birkihlíð um að framkvæmdaleyfi til breikkunar og færslu Bústaðarvegar verði fellt úr gildi. Umrædd framkvæmd felur í sér að lengja frárein og brekka rampinn við Bústaðaveg sem liggur niður að Kringlumýrarbraut.
Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að framkvæmdaleyfið sé ekki háð form- eða efnisannmörkum og verður kröfu íbúanna því hafnað.
Málið kom fyrst upp í fyrra þegar íbúar í þremur húsum við Birkihlíð kærðu framkvæmdaleyfi Vegagerðarinnar sem Reykjavíkurborg hafði samþykkt í ágúst. Komst sama úrskurðarnefnd þá að þeirri niðurstöðu að fella úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúans um að veita leyfið þar sem ekki hefði farið fram grenndarkynning á fyrirhugaðri framkvæmd. Var íbúunum ekki kunnugt um að til stæði að breikka götuna fyrr en framkvæmdir hófust.
Með verkinu átti að færa um 200 metra hluta götunnar allt að fjórum metrum nær nokkrum húsum í götunni með breikkun hennar. Töldu íbúar þetta meðal annars hafa áhrif á hávaða, svifryk o.fl.
Strax í kjölfarið á úrskurðinum var hljóðvistarskýrsla fyrir svæðið gefin út og framkvæmdin sett í grenndarkynningu. Þá var haldinn kynningarfundur um framkvæmdina og skýrsla um umferðarhermun kynnt. Kærendur gerðu aftur athugasemdir við framkvæmdina en Reykjavíkurborg gaf út framkvæmdaleyfi í febrúar á þessu ári.
Íbúar eins húss kærðu þá niðurstöðu og var það úrlausnarefni nefndarinnar í þetta skiptið. Auk kröfunnar um að fella framkvæmdaleyfið úr gildi fór íbúinn fram á að hljóðmön yrði færð til sama horfs og áður. Í málsástæðum var meðal annars bent á að með framkvæmdunum væri borgin að færa eina umferðarmestu stofnæð borgarinnar nær húsi kærandans.
Sem fyrr segir féllst úrskurðanefndin ekki á málsástæður kæranda og hafnaði kröfu um ógildingu á framkvæmdaleyfinu sem skipulagsfulltrúi gaf út í febrúar.