Segir fullyrðingar Ragnars Þórs „fjarstæðukenndar“

Jóhannesson Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Jóhannesson Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Samsett mynd

„Mér er þó bæði ljúft og skylt að segja frá því að fullyrðingar Ragnars standast ekki skoðun,“ segir Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns, í Facebookfærslu frá því í gær þar sem hann svarar Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, fullum hálsi.

Ragnar birti í gærmorgun langa færslu á Facebook þar sem hann gerði meint „brask og brall“ stjórnenda Icelandair og Samtaka atvinnulífsins að umræðuefni. Sagði Ragnar að 700 milljónum hefði verið skotið undan með slíku athæfi.

Tilefni virðist vera þau ummæli Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, um að Fjármálaeftirlitið hlyti að taka ummæli Ragnars um aðkomu lífeyrissjóða að fjármögnun Icelandair til skoðunar. Samtök atvinnulífsins fóru einnig fram á það.

Skoðað hvort ekki hafi verið fylgst nóg vel með Icelandair

„Við hljótum þá að gera kröfu á móti og krefja fjármálaeftirlitið að skoða hvort stjórn Icelandair, og hugsanlega stjórnir lífeyrissjóða hafi brotið gegn umboðs og eftirlitsskyldu sinni í málefnum Icelandair. Aðgerðarleysi stjórna lífeyrissjóðanna, sem eru stærstu eigendur Icelandair, er mikið áhyggjuefni og þarfnast nánari skoðunar,“ skrifar verkalýðsforinginn

Hann segir að það yrði ágætis byrjun að skoða „braskið og brallið í kringum Lindarvatn ehf., sem sér um byggingu hótels á Landsímareitnum svokallaða. Þá fer Ragnar yfir tengslin milli Icelandair og SA, aðallega hvað varðar starfsmenn sem hafa störfuðu fyrir flugfélagið áður en þeir færðu sig yfir til Samtakanna.

„Hvað bjó eiginlega að baki?“

„Icelandair group er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóðanna en fyrrum forstjóri fyrirtækisins Björgólfur Jóhannsson var einnig formaður SA. Hjá Icelandair störfuðu einnig Halldór Benjamín Þorbergsson og Davíð Þorláksson sem einnig stýrðu Lindarvatni ehf. (félagi sem reisir lúxushótel á Landsímareitnum). Fyrrum stjórnarformaður Lindarvatns var fjármálastjóri Icelandair group, Bogi Nils Bogason núverandi forstjóri Icelandair group.“

Ragnar fer næst yfir forsögu og aðdraganda þess að Icelandair eignast 50% hlut í Landsímareitnum. Hann spyr sig hvers vegna staðið hafi verið að málum eins og raun ber vitni og spyr: „Hvað bjó eiginlega að baki?“

„Allar líkur eru á að Icelandair hafi nú þegar tapað 1,87 milljarði króna á fjárfestingunni þar sem framkvæmdakostnaður virðist langt umfram virði og leigusamningur stendur undir. Lífeyrissjóðirnir voru fengnir til að setja 4 milljarða í verkefnið í formi skuldabréfakaupa en sjóðirnir hafa reyndar lýst því yfir að ekki verði settir meiri peningar í verkefnið. Þannig að milljarðarnir fjórir fóru að mestu í að endurfjármagna skuldir Lindarvatns,“ heldur Ragnar fram.

Ragnar hefur farið með himinskautum

Jóhannes, sem hingað til segist ekki hafa svarað málflutningi Ragnars vegna þess hve „fjarstæðukenndur“ hann er ákvað aftur á móti að gera það í þetta skiptið.

„Ragnar Þór Ingólfsson hefur undanfarna mánuði farið með himinskautum um verkframkvæmdir á Landssímareitnum. Hann heldur því fram að stjórnendur Lindarvatns, ráðgjafar og starfsmenn hafi tekið sig saman um að blekkja fé út úr lífeyrissjóðum sem hafa lánað fé til verksins. Fyrir ekki svo löngu síðan hélt Ragnar því fram að allar framkvæmdir væru stopp og aldrei stæði til að byggja á reitnum,“ skrifar Jóhannes og heldur áfram.

„Við höfum tekið þann pólinn í hæðina að láta verkin tala. Það blasir við þeim sem hafa átt leið hjá reitnum undanfarið að þar hefur mikið verk verið unnið, framkvæmdir eru langt komnar og reiturinn er allur að taka á sig mynd.“

Fullyrðingar Ragnars standist ekki

Þá segir Jóhannes það honum ljúft og skylt að segja frá því að fullyrðingar Ragnars standist ekki skoðun. Staðreyndin sé sú að framkvæmdir á Landssímareit eru í fullum gangi. Það starfi um 200 manns við verkefnið og hafa gert undanfarin misseri, sem sé mjög jákvætt í þeim þrengingum sem standa nú yfir.

„Við þetta má bæta að framkvæmdirnar eru að fullu fjármagnaðar, auk þess sem framkvæmdakostnaður stefnir á að verða innan áætlana. Það er vissulega rétt hjá Ragnari að verkið hefur dregist talsvert frá því sem vonast var til í upphafi, en það á sér skýringar sem allir þekkja nú þegar.

Það skiptir líka máli í þessu samhengi að lán Lindarvatns frá lífeyrissjóðunum er og hefur alltaf verið í skilum. Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur fengið yfir hundrað milljónir í vexti og verðbætur frá Lindarvatni til þessa.

Til allrar hamingju eru fullyrðingar Ragnars Þórs um blekkingar og vandræði á Landssímareitnum úr lausu lofti gripnar. Hluthafar og stjórnendur Lindarvatns eru sannfærðir um að þegar framkvæmdum lýkur verði reiturinn lyftistöng fyrir borgarbúa og gesti okkar, sem ekki er vanþörf á, á þessu mikilvæga svæði í hjarta Reykjavíkur,“ skrifar hann einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert