Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur skrifað minnisblað til ráðherra þar sem lagt er til að fjöldatakmarkanir verði rýmkaðar upp í 1.000 manns 4. ágúst. Sömuleiðis hefur verið lagt til að skemmtistaðir og veitingahús fái að hafa opið til miðnættis frá sama tíma.
Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Þórólfur lagði á fundinum áherslu á að viðhalda varúðarráðstöfunum. Það hefði sýnt sig í þeim löndum sem hefðu farið hvað verst út úr farsóttinni að það væri of seint að grípa til aðgerða þegar veiran hefði lagst á mikinn fjölda fólks og skaðað þannig heilbrigðiskerfið. Hann segir að áfram þurfi að beita markvissum en þó eins hagkvæmum skimununum á landamærum og mögulegt sé. Horft sé fram á að skimanir á landamærum verði til sex mánaða og jafnvel lengur.
Þá áréttaði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, að ekki væri verið að draga úr viðbúnaði heldur væri verið að breyta nálguninni. Lögð yrði áhersla á daglegan rekstur verkefnisins frekar en að skipulagið tæki mið af neyðaráætlun. Víðir sagði einnig að lögregluumdæmin væru vel undir komandi ferðahelgar búin en að áhyggjur væru uppi af því að óskipulagðar útihátíðir ættu eftir að valda vandræðum.